151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[13:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, hæstv. forseta þingsins, fyrir ræðu hans. Ég get tekið undir ýmislegt í henni en ætla að nefna þrjá þætti sem ég er ekki viss um að ég sé alveg sammála hv. þingmanni um. Í fyrsta lagi vildi ég nefna að ég álít að breytingarnar sem varða Alþingi séu að töluverðu leyti táknrænar frekar en að þær styrki stöðu þingsins svo mikið. Það kann að vera álitamál hvort það eigi við í öllum tilvikum en ég held að breytingarnar séu kannski fremur táknrænar en efnislegar í öllum tilvikum, nema hugsanlega einu sem ég nefni á eftir.

Í annan stað vildi ég nefna að þó að ég leggist að sjálfsögðu ekki gegn því að þingræðisreglan sé skrifuð inn í stjórnarskrá þá held ég að ekki hafi verið tiltakanlega mikill ágreiningur um að þingræðisreglan væri í gildi á Íslandi og hefði verið í vel yfir 100 ár og ekki mikil álitamál í því sambandi. Það er sjálfsagt að taka þingræðisregluna inn og skrifa hana inn í textann en í því felst auðvitað ekki mikil breyting.

Annað atriði sem ég vildi nefna varðar þingrofið. Ég kem kannski nánar inn á þingrofsákvæðið í ræðu minni á eftir af því að það þarf aðeins meiri tíma í það. En ég vildi bara geta þess að ef ætlunin með ákvæðinu er að gera það sem mér heyrðist hv. þingmaður tala um, að þing yrði ekki rofið nema fyrir því væri meiri hluti þingsins, (Forseti hringir.) þyrfti að ganga skýrar frá því í texta ákvæðisins en hér er gert.