151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Aðeins meira um 21. gr. sem kveður á um að frumvarp falli niður við lok kjörtímabils og þá ekki milli þinga. En það eru fleiri þingmál, fyrirspurnir, þingsályktunartillögur, skýrslubeiðnir og þess háttar, sem gætu líka heyrt þarna undir. Fyrirspurnir augljóslega því að við lendum oft í því að það eru kannski átta til tíu fyrirspurnir sem klárast ekki á hverju þingi og þarf þá að leggja fram aftur, það er bara mjög eðlilegt að þær vinnist eins og þær gera. Væri þá ekki eðlilegra að tala um að þingmál falli niður við lok kjörtímabils eða eitthvað þess háttar?

Mig langaði líka aðeins til að fjalla um þetta, að það væri heilbrigt, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi, að leggja fram mál að nýju. Það væri heilbrigt fyrir málið að endurstilla það, að núllstilla það o.s.frv. En kannski er vandamálið þar hversu ódugleg við erum í raun í því að nefnd afgreiði mál, t.d. bara með tillögu um að vísa því til ríkisstjórnar eða hafna á núverandi forsendum; að málið sé einfaldlega of viðamikið eða þurfi að fara í mun ítarlegri skoðun eða eitthvað því um líkt, að því sé vísað áfram á þann hátt, að við séum duglegri við að afgreiða mál úr nefndum til frekari skoðunar, til afgreiðslu innan þingsins, í staðinn fyrir að halda í þá hefð að svæfa mál í nefnd. Þegar allt kemur til alls þá er það vandamálið að nefnd tekur ekki mál til afgreiðslu, til umræðu, þau bara geymast þar, geymast og geymast í staðinn fyrir að nefndin taki málið einfaldlega upp og segi: Það er ekki tími til að afgreiða þetta og útskýri þá fyrir forseta að það verði ekki á dagskrá á þessu þingi, en kannski verði tími á næsta eða eitthvað því um líkt; en að nefnd afgreiði fleiri mál.