151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðasta þáttinn segi ég bara: Ef menn eru þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, að það sé vandamál að einhver geti náð kjöri sem forseti með minni hluta atkvæða þá held ég að menn verði að stíga skrefið til fulls og fá tvær umferðir þannig að fólk standi einfaldlega frammi fyrir því að velja milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fá í fyrri umferð eða eitthvað þess háttar. Mér finnst það ekki brýnt en séu menn þeirrar skoðunar að það sé brýnt þá vel ég frekar tveggja umferða kerfi en forgangsröðunarkerfið.

Hitt atriðið sem ég náði ekki að koma inn á í fyrra svari mínu varðaði samanburðinn annars vegar á synjunarvaldi forseta samkvæmt 26. gr. og svo hugsanlegu synjunarvaldi forseta gagnvart einhverjum öðrum athöfnum þar sem undirskriftar hans er krafist. Á því er reginmunur. Nú ætla ég ekki að fara hér út í gamlar deilur sem hin sögulega þróun hefur gert algerlega óþarfar. Það er óþarfi fyrir okkur að velta fyrir okkur hvort synjunarvald forseta sé hjá honum eða ráðherra. Reynslan hefur sýnt okkur hver niðurstaðan er í því máli. En sá er munur á synjunarvaldi samkvæmt 26. gr. og svo öðrum hugsanlegum synjunum forseta á að undirrita stjórnarathafnir, eins og honum er falið samkvæmt stjórnarskrá, að í 26. gr. er sett fram með skýrum hætti regla um það að forseti geti synjað staðfestingar og að það hafi tilteknar afleiðingar. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að tiltekin atburðarás fari í gang ef forseti synjar. Það á ekki við ef forseti myndi t.d. neita að undirrita skipunarbréf til embættismanns eða neita að undirrita samning við erlent ríki eða eitthvað annað þess háttar.