151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:46]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að ég féll ekki í stafi þegar ég sá frumvarp forsætisráðherra og ég er heldur ekki viss um að hún hafi reiknað með því. Í því er margt sem mér finnst óþarft og skýrir ekki mikið fyrir mér, annað er meinlaust og svo eru líka hlutir sem eru til skaða. Hins vegar er mjög gaman að geta tekið hér þátt í umræðu um stjórnarskrá og ég held að það væri mjög gott ef sem flestir hlustuðu á þessa umræðu. Ég veit ekki hvort það sé mikill mannskapur að hlusta, ég vona það og sérstaklega að hlusta á mig. (Gripið fram í: Ekki lengur.) (Gripið fram í: Það eru allir að hlusta.)

Það sem gerist og er svolítið merkilegt er að þegar bankarnir hrynja 2008 rýkur stjórnarskrárumræðan upp aftur. Það var ekki bara að almenningur héldi að hrunið væri séríslenskt fyrirbæri og alveg heimatilbúið vandamál hjá okkur heldur var það líka stjórnarskránni að kenna. Allt í einu verður stjórnarskráin aðalumræðan. Ég verð að viðurkenna að ég hef hreinlega kvalist yfir þessari umræðu alveg frá árinu 2009. Þetta hefur verið kvalarfullt fyrir mig og sjálfsagt fleiri. Í fyrsta lagi eru svo margar rangfærslur í umræðunni. Það er misskilningur að hluta, það eru rangfærslur og hreinir útúrsnúningar. Ef við förum aðeins yfir það allt saman þá byrjar umræðan á því að hrunið sé stjórnarskránni að kenna, sem er náttúrlega fullkomin þvæla, að stjórnarskráin sem er í gildi hafi bara verið bráðabirgðastjórnarskrá. Hún var ekki til bráðabirgða þó að menn gerðu sér grein fyrir að endurskoðun þyrfti, að þetta hefði auðvitað gerst svolítið fljótt og það þyrfti endurskoðun. En það var enginn að tala um heildarendurskoðun og eitthvert nýtt system. Menn verða í þessu sambandi að átta sig á hvað stjórnarskrá er. Af hverju höfum við stjórnarskrá? Af hverju hafa hin Norðurlöndin lög sem þau kalla „grundlov“? Fyrirgefið, þetta var á dönsku, herra forseti. (Gripið fram í: Það held ég nú ekki. Var þetta ekki norska?) Blanda.

En hvað á að vera í þessu plaggi? Um hvað snýst þetta plagg? Það snýst auðvitað um hvaða stjórnskipun við ætlum að hafa í þessu landi. Það snýst fyrst og fremst um það. Að öðru leyti snýst stjórnarskráin í mínum huga, af því að við erum komin í nútímann, sem menn voru ekki að hugsa svo mikið um þá, um réttindi okkar borgaranna, grunnréttindi gagnvart stjórnvöldum. Um það er stjórnarskrá í mínum huga. Ég fylgdist auðvitað með allri þessari umræðu eftir 2009. Ein rangfærslan um stjórnarskrána sem er í gildi er að henni hafi aldrei verið neitt breytt. Það hefur nú komið fram í umræðunni hér í salnum í dag að henni hefur verið breytt heilmikið. Við breyttum ekki stjórnskipan landsins en stjórnarskránni hefur verið breytt. Sennilega hefur meiri hluta ákvæðanna verið breytt. Þar fyrir utan eru tvær mjög miklar breytingar; veigamiklar breytingar varðandi mannréttindakaflann, árið 1995 ef ég man rétt, og breyting varðandi jafnvægi atkvæða árið 1999. Þessar tvær stóru breytingar voru undir forystu Sjálfstæðisflokksins sem er sakaður um að vilja ekki breyta einu eða neinu. Það er bara enn ein rangfærslan.

Menn hafa haldið því fram hér í umræðunni, að hluta til líka í samfélaginu sjálfu, að þjóðin hafi á árinu 2012 samþykkt nýja stjórnarskrá. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé fór nú bara yfir það rétt á undan mér að þetta hafi verið hluti af einhverju ákveðnu ferli. En öllum var ljóst á þeim tíma að ekki var verið að kjósa um nákvæmlega þessa nýju stjórnarskrá. Það stóð aldrei til. Allir vita að ferlið er ekki þannig. Samt halda menn þessu enn þá fram í umræðunni, stöðugt er þessu haldið fram. Þetta eru endalausar rangfærslur og ég er mjög ósáttur við það. Menn halda því líka fram að ferlið í kringum stjórnlagaráð hafi verið eitthvað sérstaklega lýðræðislegt ferli. Það var það auðvitað ekki. Það byrjaði á því að kosið var til einhvers stjórnlagaþings þar sem hundruð manna voru í framboði og eftir stóðu 25 sem fengu flest atkvæði. Sá sem fékk flest atkvæði í stjórnlagaráð fékk færri atkvæði en ég í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 2012. Það var ekkert lýðræðislegt umboð sem hver og einn í stjórnlagaþinginu hafði. Svo endaði þetta með því að kosningin var dæmd ólögmæt. Þá var farið í að skipa þetta umboðslausa fólk í stjórnlagaráð. Það hefur sjálft sagt að þetta hafi verið málamiðlanir, að hver og einn hafi fengið eitthvað í sinn hlut. Svo koma menn með þetta plagg og segja: Þetta er vilji þjóðarinnar. Þetta er stórkostlegt lýðræði. Menn hamra enn þá á því að við höfum svikið þjóðina, farið fram hjá þjóðarvilja.

Ég verð að segja að ég gef lítið fyrir það að fara í svona kosningu og í svona vegferð á sama tíma og þjóðin er í stórkostlegu áfalli, er að glíma við stórkostlegan vanda og einhverjir búnir að sannfæra hana um að stjórnarskráin sé sökudólgurinn. Svo koma menn aftur núna átta árum síðar og segja: Þetta er enn þá vilji þjóðarinnar. Nei, við getum gert miklu betur en þetta. Og ég er ekki á móti breytingum. Forsetakaflinn er ekki vandamál í mínum huga eins og hann lítur út núna en ég hefði viljað sjá tekið á þeim atriðum sem við höfum verið að vandræðast með. Ég hef alla tíð sagt: Það þarf að skýra forsetakaflann betur. Ég er líka búinn að kveljast yfir því í hverjum einustu forsetakosningum, og þær eru allar mjög kvalafullar, að frambjóðendur séu hver með sínu nefi að reyna að skilgreina hvaða vald forsetinn hefur. Það er óviðunandi og við þurfum að taka á því með skýrum hætti. Er forsetinn ábyrgðarlaus gagnvart stjórnarathöfnum eða er hann það ekki? Og ef hann er það ekki einhvers staðar þá skulu menn nefna það með skýrum hætti. Hvert er valdsvið hans í raun? Er yfirhöfuð eitthvert efnislegt vald? Hvernig eigum við að bregðast við því ef nýr forseti kemur og segir: Ég ætla ekki að skrifa undir þessa stjórnarathöfn? Þá er sagt við hann: Bíddu, þú ert ábyrgðarlaus. Það er ráðherra sem ber ábyrgð á þessu. Þetta er ábyrgð hans og þetta er ákvörðun hans. — Nei, ég skrifa ekki undir, ég er bara á móti þessu. — Hvað gerist þá? Ég vil svara því. Því er svarað varðandi það að synja lagafrumvörpum staðfestingar en að öðru leyti ekki. Við þurfum að taka á þessu með skýrum hætti.

Ég verð að taka það fram líka, og ég tek undir með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, að sameiningartákn þjóðarinnar finnst mér mjög kóngalegt dæmi. Ég hef ekki verið hrifinn af því að hafa forsetaembætti yfir höfuð. Það er auðvitað bara framlenging á því sem við köllum sameiningartákn sem venjulega eru kóngar og drottningar. Ef forsetanum er ekki ætlað í stjórnskipun okkar að hafa efnislegt vald þá er hann óþarfur í mínum huga, nema þá til að vera einhvers konar sameiningartákn. Í staðinn fyrir að við höfum kóng eða drottningu förum við reglulega í vinsældakosningu um hver sé sameiningartáknið okkar. Ég er ekki áhugasamur um það. Ég vil ekki taka þátt í einhverjum svona vinsældakosningum. Ég veit að ég er í algerum minni hluta með þetta og ég geri enga kröfu um að við breytum þessu og tökum forsetann út, en ég impra á því hér. Af því að við tölum um hvað sumt sé úrelt þá finnst mér þetta úrelt. Mér finnst líka konungsdæmi, sem menn kalla á útlensku „monarchy“, með leyfi forseta, (Forsrh.: Ég skil þetta allt.) algjörlega úrelt og engum myndi detta í hug í dag að stofna slíkt. Ég vil bara að völd og ábyrgð fari saman í þessu sem öllu öðru. Þess vegna ættum við að losa okkur við þetta embætti, það myndi sparast heilmikill peningur, og gera kannski veg forseta Alþingis meiri og jafnvel forsætisráðherra, af því að hæstv. forsætisráherra situr hér í salnum. (Umhvrh.: Hann reynir að koma sér vel við vinstri menn.) Þetta eru sjónarmið mín í þessu og ég held að við ættum að gera þetta. En það er auðvitað bara síðari tíma umræða.

Það er margt sem truflar mig í þessu. Ég hef eiginlega ekki tíma til að fara yfir það allt en ég ætla að byrja á að impra á þessum hugmyndum um þjóðareign og auðlindaákvæði. Það er nú ein rangfærslan sem verið hefur í umræðunni að í öðrum löndum séu einhver auðlindaákvæði og þar þurfi allir að borga fullt verð fyrir að nýta auðlindir. Það er ein rangfærslan enn, að víðast hvar, alla vega í löndum sem við berum okkur saman við, séu auðlindaákvæði þar sem einhver þjóðareign er skilgreind og að ekki megi ráðstafa eða leyfa mönnum að nýta hana nema gegn fullu gjaldi. Ég held að það sé hvergi. Við gætum kannski fundið slíkt einhvers staðar í Suður-Ameríku eða Afríku. Ég veit að ég kemst ekki alveg inn í þessa umræðu en ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá af því að ég ætla að taka sérstaklega fyrir umræðuna um þjóðareign og auðlindaákvæði.

Ég ætla ekki að eyða tíma í náttúruverndarákvæðið vegna þess að ég skil það ekki. Ég held að það muni skapa ótrúlegan vanda og nánast opna pandórubox sem mun skapa mikla réttaróvissu, langa framkvæmd, til að reyna að fá einhvern botn í það, endalausar málshöfðanir. Fljótlega verður krafa um að þær málshöfðanir verði greiddar af skattgreiðendum sem einhvers konar gjafsóknarkostnaður. Ég held að þetta sé óþarft og við ættum að fara mjög varlega í að setja inn í stjórnarskrá ákvæði af þessu tagi sem munu bara skapa réttaróvissu og færa í raun vald og ákvarðanir til dómstóla til að reyna að meta það hverju sinni hvað teljist eðlilegt í þessu. Ég er ekki hrifinn af því, hæstv. forsætisráðherra, svo ég segi það bara beint út. Það er út af fyrir sig tilgangslaust. Það er ekki þar með sagt að við séum ekki öll sammála um að reyna að bæta öll gæði okkar, vernda náttúruna o.s.frv. Það er enginn ágreiningur um það.

Ég verð að bíða fram í næstu ræðu með að ræða sérstaklega auðlindaákvæðið því að það er auðvitað það sem þetta mál snýst allt saman um og sem öll stjórnarskrárumræðan hefur raunverulega snúist um. Auðvitað umhverfist þetta um eitt mál sem er stjórn fiskveiða. Það er því nauðsynlegt að taka það sérstaklega.