151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni bæði spurningar og svör og glöð skal ég ræða um aðra þætti í stjórnarskránni. Ég er ekki skoðanasystir hv. þm. Brynjars Níelssonar sem kvelst yfir umræðu um stjórnarskrána. Ég myndi halda að ákvæði um auðlindir, og ég held að það hafi verið það sem lagt var upp með, varði auðlindirnar allar og verði almennt í þeim skilningi. En ég velti því fyrir mér hvort þetta tungutak hafi með það að gera að þarna sé verið að sérsníða ákveðna leið í samhengi við eina tiltekna auðlind.