151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Háværustu deilurnar? Já, en það hefur fyrst og fremst verið í munni þeirra sem hafa verið að reyna að keyra á þessar breytingar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Að mínu mati hafa þeir — og þá höldum við því eins og hv. þingmaður og ég virði það að hann lýsi skoðunum sínum á þessu og ég geri það líka fyrir mitt leyti — að mínu áliti hefur ítrekað verið reynt að nota auðlindagjaldið sem einhvers konar sölutrix til að koma miklu víðtækari breytingum í gegn vegna þess að menn hafa verið þeirrar skoðunar að þar væri hægt að slá á einhverja strengi hjá almenningi í sambandi við auðlindagjaldið og á þeim forsendum hefur verið reynt að smygla í gegn fullt af öðrum breytingum. Ég bara minni á að tillögur stjórnlagaráðs gengu út á að breyta ekki bara einhverju auðlindaákvæði og einhverjum einstökum ákvæðum, það var verið að umskrifa nánast allar greinar stjórnarskrárinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og bæta 35 nýjum greinum við. Það hefur því verið heilmikið um að tala í þessu. En í áróðri þeirra sem hafa verið að berjast fyrir tillögum stjórnlagaráðs, t.d. Stjórnarskrárfélagsins og annarra, hafa auðlindamálin verið sett í sérstakan forgrunn. Það hefur að einhverra mati verið álitið pólitískt söluvænlegt.

En af því að hv. þingmaður hefur tækifæri til að svara mér aftur vildi ég spyrja ítarlega: Þegar hann talar um aukinn skýrleika í þessum forsetakafla er hann með eitthvað fleira í huga en þingrofsákvæðið? Ég ætla koma inn á þingrofið sérstaklega í ræðu minni á eftir, en þegar hann talar um aukinn skýrleika finnst hv. þingmanni eitthvað skýrara í þessu frumvarpi en í núgildandi stjórnarskrá t.d. hvaða sjálfstæða mat forseti hefur gagnvart framkvæmdarvaldsathöfnum sem hann undirritar?