151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr mig áhugaverðrar spurningar og ef ég á að vera heiðarlegur þá segi ég að hef ekki hugmynd um það hvernig þetta fer allt saman. Ég hef ekki hugmynd um það. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt og eðlilegt fyrst tillögur af þessu tagi eru komnar fram að þær fái málefnalegar umræður, bæði hér í þinginu og síðan í nefnd. Ég á alveg eins von á því að þessar tillögur, einstakar tillögur eða tillögurnar í heild, rati síðan inn í 2. umr. Ég bara verð að gera ráð fyrir því þangað til annað kemur í ljós. En ég held hins vegar að þessi atriði sem ég hef verið að nefna hérna séu þess eðlis að við þurfum raunverulega að takast á við þau og ég held að í þessum efnum sé kannski ekki svo langt á milli okkar hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það að þær reglur sem t.d. varða forsetaembættið og valdmörk forsetaembættisins gagnvart ráðherrum og þingi eftir atvikum þurfi að vera býsna skýrar því að praktískt séð þá hefur auðvitað í ákveðnum tilvikum reynt á þessi mörk eða a.m.k. verið uppi aðstæður þar sem hefði getað reynt á þessi mörk. Þá erum við auðvitað að vísa til atriða eins og varðandi þingrof en líka t.d. kemur upp í hugann atvik frá því fyrir þremur, fjórum árum þegar forseti tók sér einhverja daga til þess að velta því fyrir sér hvort hann ætti að undirrita skipunarbréf dómara sem skipaðir höfðu verið. Og þá veltir maður fyrir sér: Bíddu, hver hefur raunverulega valdið? Og í tilvikum af þessu tagi þegar forseti undirritar framkvæmdarvaldsathafnir, hefur hann raunverulega sjálfstætt mat um það hvort hann undirritar eða ekki?