151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:45]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Í dag hefur verið rifjað upp að lýðveldisstjórnarskráin var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944 með 98,5% atkvæða þar sem kjörsókn var 98%. Það hefur sömuleiðis verið rifjað upp að stjórnarskránni hefur verið breytt átta sinnum og rifjað upp til að mynda að 1991 var gerð breyting á deildaskiptingu Alþingis og 1995 var mannréttindakafli stjórnarskrárinnar endurskoðaður verulega. Þær breytingar sem gerðar hafa verið og rifjaðar hafa verið upp eiga það sammerkt að þær voru gerðar í breiðu samkomulagi á milli stjórnmálaflokka á hverjum tíma. Það tel ég mjög farsæla leið þegar stjórnarskráin er annars vegar.

Nú ber svo við að forsætisráðherra kýs, og virðist telja það heppilegt, að leggja fram frumvarp um breytingar á stjórnarskrá sem þingmannafrumvarp. Ég kemst ekki hjá því að lýsa eilítilli undrun á því að forsætisráðherra kjósi að víkja með þeim hætti frá þeirri hefð sem segja má að hafi skapast í þeim efnum. Ég efast ekki um, og þykist þess fullviss, að forsætisráðherra hafi lagt sig mjög fram um að ná í því samstarfi, sem hefur staðið yfir undanfarin misseri og ár, slíku samkomulagi og dreg að sjálfsögðu ekki heilindi hennar í málinu í efa að einu eða neinu leyti.

Herra forseti. Við erum hér á elsta þjóðþingi veraldar og það stendur þannig á að Ísland nýtur óskoraðrar viðurkenningar á alþjóðavettvangi sem lýðræðisríki og er jafnan nefnt meðal þeirra sem fremst standa í þeim efnum. Ég leyfi mér til að mynda að vitna í hið virta alþjóðlega tímarit The Economist sem hefur með höndum athuganir á þessum málum. Þar starfar eins konar greiningardeild og sendar eru út fréttir í þessu virta tímariti um niðurstöður athugana. Þegar maður slær þessu til að mynda upp í leitarvélum alnetsins er frétt frá því í ársbyrjun 2019 þar sem Ísland er í fremstu röð. Einungis Noregur stendur Íslandi framar í þessum efnum.

Grundvöllur þess að Ísland er eitt af fremstu lýðræðisríkjum í heimi og nýtur óskoraðrar viðurkenningar sem slíkt er stjórnarskrá landsins. Það skyldu menn hafa í huga. Síðan er rétt að hafa það í huga að stjórnarskráin hefur náttúrlega verið nudduð og pússuð af Hæstarétti. Á vef Stjórnarráðs Íslands er að finna yfirlit um hæstaréttardóma sem hafa gengið um einstakar greinar stjórnarskrárinnar. Við stöndum því á mjög traustum grundvelli þegar stjórnarskráin er annars vegar og full ástæða er til þess að gera breytingar á henni eftir því sem þörf krefur á hverjum tíma af þeirri varfærni og gætni og í því breiða samkomulagi sem eðlilegt er.

Herra forseti. Það kennir margra grasa í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra og mætti kannski segja að þar sé eitthvað fyrir alla. Ég á þar uppáhaldsákvæði til að mynda, sem er ákvæðið um íslenska tungu þar sem segir að íslenska skuli vera ríkismál Íslands og ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda. Hitt verð ég að viðurkenna, herra forseti, að það dofnaði eilítið yfir gleði minni yfir þessu ákvæði í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá að á sama tíma er til meðferðar á Alþingi mál hæstv. dómsmálaráðherra um breytingar á mannanafnalögum. Það kemur fram í áliti sérfræðinga sem sjá má meðal umsagna um það mál, svo það sé sagt bara beint út, eins og segir til að mynda í áliti dr. Guðrúnar Kvaran, sem er höfundur ritsins Nöfn Íslendinga og gjörþekkir íslenskan mannanafnaforða, að ákvæði í frumvarpinu vegi að mál- og beygingarkerfi íslensku. Þarna er stjórnarfrumvarp sem íslenskunni stafar háski af, að dómi færustu sérfræðinga, og mætti orða það þannig að það sé líkt og brotið sé gegn ákvæði í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra áður en það er einu sinni lögfest.

Í frumvarpinu eru nokkur atriði sem er ástæða til að nefna. Auðvitað eigum við eftir að fá umsagnir og 2. umr. og allt það. En áður en ég kem að því hlýt ég að geta þess að mér er a.m.k. þannig farið að mér hefur þótt mjög miður hvernig sumir hafa kosið að tala um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, tala hana niður og hafa um hana hæðnisleg orð og tala jafnvel um hana vegna uppruna hennar, ef við hugsum aftur til ársins 1874 þegar við þáðum frelsisskrá úr föðurhendi, eins og skáldið komst að orði, eins og einhvers konar aðskotahlut í íslensku samfélagi. Hún er það svo sannarlega ekki. Hún hefur reynst vel og á það skilið að við göngum um hana með gætni, varúð og virðingu.

Herra forseti. Ef ég myndi drepa niður á örfáum stöðum í frumvarpi hæstv. ráðherra þá er í fyrsta lagi erfitt að sjá að beint tilefni sé fyrir sum ákvæðin. Maður áttar sig t.d. ekki á hvert sé tilefni ákvæðis, sem var rætt hérna fyrir skemmstu, um starfsstjórnir. Hafa verið einhver vandamál varðandi ákvarðanir sem hafa verið teknar á starfstíma starfsstjórna? En svo að ég taki þetta í röð þá komum við í 2. gr. að forseta Íslands. Þar er gerð tillaga um að tekið verði upp það sem heitir forgangsröðunaraðferð við kjör forseta. Það er erfitt að átta sig á því af hverju það er gert eða hvað kallar á það. Við erum ekki með forsetaembætti eins og Bandaríkjamenn eða Frakkar þannig að maður áttar sig ekki á tilefni þess. Sömuleiðis áttar maður sig ekki á því af hverju allt í einu dúkkar hér upp tillaga um sex ára kjörtímabil. Við höfum búið við þá reglu mjög lengi varðandi alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar og kosningar til embættis forseta Íslands að við höfum fjögurra ára kjörtímabil. Það er erfitt að átta sig á þessari tillögu og sömuleiðis að talin skuli vera ástæða til þess að binda forseta við það að mega ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil. Af hverju skyldi Alþingi taka réttinn frá íslensku þjóðinni, ef hún er ánægð með forseta sinn, að endurkjósa hann til embættis?

Það er sömuleiðis sérkennilegt sem ber fyrir í 8. gr., þar kemur alveg ný regla sem er eins konar útfærsla á þingræðisreglunni. Þingræðisreglan er venjuhelguð stjórnskipunarregla og ekkert að því að fjalla um hana eða setja hana inn í stjórnarskrá. En í 8. gr. er eins konar viðbót sem felur í sér að forseta sé heimilt að óska eftir yfirlýsingu Alþingis um stuðning eða hlutleysi áður en ný ríkisstjórn er skipuð. Það vekur auðvitað upp margar spurningar og veldur óvissu.

Herra forseti. Tíminn hleypur frá mér. Í 16. gr. er vikið að 26. gr. stjórnarskrárinnar og það er sú grein sem menn þekkja um heimild forseta til að skjóta þingmáli til þjóðarinnar, máli sem Alþingi hefur samþykkt, til þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan er bætt við: „Atkvæðagreiðsla fer þó ekki fram felli Alþingi lögin úr gildi innan fimm daga frá synjun forseta.“ Ég held að öllum sé ljóst að þessi fimm daga regla getur varla stuðst við nein raunhæf sjónarmið.

Þarna er grein um náttúruvernd. Það er svo sem ósköp saklaust og gerir ekkert til þó að þar sé almenn yfirlýsing eins og þessi: „Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu.“ Þetta er svona almennt. En í ákvæðinu er orðið „ábyrgð“ sem gæti haft þýðingu í lögfræðilegu tilliti og spurning um það á hvern sú ábyrgð er lögð sem þarna er fjallað um. Sömuleiðis er fjallað um rétt almennings til upplýsinga um umhverfið, það er auðvitað ágætt, og áhrif framkvæmda. Síðan er bætt við: „og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið“. Það vekur auðvitað spurningar. Sömuleiðis vekur spurningar í auðlindaákvæðinu að hugtakið „auðlindir náttúru Íslands“ virðist ekki vera skilgreint og heldur ekki hugtakið „sjálfbær nýting“. Þar segir að auðlindir skuli nýta á sjálfbæran hátt. Þetta vekur upp spurningar. Auðvitað væri hægt að nefna fleiri atriði, herra forseti, en í ljósi þess að tíma mínum er lokið ætla ég að láta þetta nægja að sinni.