151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:04]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get eiginlega ekki annað en lýst undrun á þessari ræðu hv. þingmanns. Þegar ég sagði slæleg þátttaka hafði ég að sjálfsögðu í huga þá þátttöku sem við eigum að venjast hér á Íslandi í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki í Sviss þar sem hlutirnir eru með öðru sniði. Við hljótum að taka mið af íslenskum aðstæðum. Ég veit ekki hvaða orðabók það er sem hv. þingmaður vitnar til, að orðalagið „lagt til grundvallar“ feli í sér þá merkingu sem hann hafði hér uppi, að það mætti ekki víkja frá því nema að mjög takmörkuðu leyti, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Auðvitað hvílir sönnunarbyrðin bara á hv. þingmanni að leiða það í ljós að þetta orðalag hafi þá merkingu sem hann stritast við að halda fram hér í dag og svo oft áður. Auðvitað er hv. þingmanni fullkomlega frjálst að berja höfðinu við steininn í þessu efni jafn oft og hann kýs en almennur málskilningur, ef hv. þingmaður virðir hann einhvers, er náttúrlega sá að það að leggja til grundvallar sé ekki orðalag sem fallið sé til þess að draga af því jafn stórfelldar ályktanir eins og hv. þingmaður virðist gera. Þess vegna er ekki byggjandi á þessari atkvæðagreiðslu árið 2012 með þeim hætti sem hv. þingmaður heldur hér ítrekað fram.