151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:19]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi erum við að styrkja starfsemi Fjölmenningarseturs. Við erum að fela því aukið hlutverk þegar kemur að samspilinu á milli flóttafólks annars vegar og þeirra sveitarfélaga sem það ætlar að búa í hins vegar og forma þá þjónustu og para saman. Þetta er það sem frumvarpið snýst um. Það snýst um að veita Fjölmenningarsetrinu þá lagastoð. Sá sem hér stendur sér fyrir sér að Fjölmenningarsetrið muni áfram gegna lykilhlutverki í þessu og muni áfram hafa sína starfsstöð á Ísafirði. Það er nýbúið að ráða þar nýja forstöðukonu, það var bara núna fyrir örfáum vikum, og gert er ráð fyrir því að hún sinni störfum sínum frá Ísafirði og að stofnunin hafi áfram starfsstöð þar. Það er því alla vega ekki á stefnuskrá núverandi ráðherra eða núverandi ríkisstjórnar að breyta því með nokkrum hætti.