151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum mjög svo gott og tímabært frumvarp um breytingar á áfengislögum. Ég held að þetta sé bara mjög tímabær og eðlileg breyting á lögunum sem lýtur að því að leyfa brugghúsum, sem eru kannski tiltölulega nýtt fyrirbrigði, þessi örbrugghús, að selja beint frá framleiðslustað sínum. Mér verður hugsað til þess að í einhverri hringferð okkar Sjálfstæðismanna heimsóttum við brugghús í Vestmannaeyjum sem ber heitið Brothers Brewery, er því miður á engilsaxneskri tungu en er engu að síður nafn þessa ágæta brugghúss. Aðilarnir sem það ráku lýstu fyrir okkur framleiðslunni og hvernig þetta allt saman virkaði og sögðu okkur frá því að þarna um sumarið hefði komið hópur fólks og verið að smakka bjórinn og vildi að sjálfsögðu fá að kaupa flöskur til að taka með sér heim. Þetta voru bjóráhugamenn sem ferðuðust til Íslands gagngert til þess að koma og heimsækja svona minni brugghús. Svo spurði þetta ágæta fólk sem var statt í Vestmannaeyjum: Jæja, er eitthvað annað að sjá á þessari eyju? Er eitthvað annað merkilegt við þessa eyju? Þá fór maður að hugsa að þetta væri greinilega orðinn markaður ef fólk ferðast um landið og mætir til Vestmannaeyja, sem eru þekktar fyrir flest annað en að vera með brugghús, eingöngu til að heimsækja brugghúsið en veit ekkert um eldgos eða aðra sögu eyjanna.

Ég held að þetta sé mikið jafnræðismál og hér er um atvinnumál að ræða. En það er auðvitað voðalega freistandi þegar við ræðum um breytingu á áfengislögum að umræðan fari svolítið út í það hvaða umhverfi við búum áfengissölu. Hér hefur oft verið sagt í dag að áfengi sé ekki venjuleg neysluvara. Ég get alveg verið sammála því og áfengi getur verið algjört böl og það er skynsamlegt að hafa reglur og ramma í kringum áfengi. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson tók af mér ómakið þar sem ég var búin að velta fyrir mér þessu með tóbakið, því að tóbak er líka algjört böl, krabbameinsvaldandi efni sem gerir fólk mjög háð neyslunni. Við höfum skýrar reglur í kringum það. Þegar ég var 13 ára unglingur seldi ég tóbak í sjoppunni þar sem ég var að vinna. Nú erum við sem betur fer komin með reglur um að það má enginn selja tóbak nema vera orðinn 18 ára og tóbakið er í lokuðum skápum og ekki mjög sýnilegt viðskiptavinum. En það er engu að síður hægt að kaupa tóbak út í sjoppu og hvaða verslun sem er.

Ég hef oft sagt það í ræðum þegar við höfum rætt um áfengislögin að ég skil það að við viljum hafa reglur. Ég skil að við viljum tryggja að áfengi sé ekki með einhverjum hætti ýtt að börnum, ég skil þörfina fyrir þennan ramma, en ég skil ekki að það þurfi að vera ríkisstarfsmenn sem selji áfengið. Ég skil ekki að ég geti keypt vín í glasi af einkafyrirtæki en ef ég ætla að kaupa vín í flösku þá þurfi ég að fara í einhverja opinbera búð. Ég skil það bara ekki. Við erum með ýmsar vörur sem eru hættulegar og okkur finnst nauðsynlegt að hafa einhvern ramma um, ég get nefnt skotvopn, flugelda, sprengiefni, lyf og svo tóbak, sem við erum flest sammála um að þurfi einhvern ramma. En það er ekkert sem segir að ríkið þurfi að vera með lyfjaverslanir, tóbaksverslanir, sprengiefnaverslanir, flugeldaverslanir eða skotvopnaverslanir.

Að því sögðu styð ég að sjálfsögðu þetta frumvarp sem hér kemur fram og ítreka að það fjallar ekki um það sem ég var að segja nákvæmlega núna. Það var kannski meira til að lýsa afstöðu minni. Mér finnst það eðlilegt og ég held að það sé hluti af atvinnuuppbyggingu og mikilvægi ferðaþjónustunnar, í ljósi þeirra sem koma og heimsækja þá ört stækkandi atvinnugrein sem minni brugghús eru, að þessir aðilar hafi líka tækifæri til að selja vörurnar sínar frá brugghúsum. Ég sé enga ástæðu til að vera með frekari ramma í kringum það, hversu margir bjórar það ættu að vera eða þess háttar. Í rauninni má líka velta því fyrir sér að hér er auðvitað verið að tala eingöngu um öl, áfengismagnið má ekki vera meira en 12% samkvæmt þeim drögum sem hér eru. Ég sé persónulega ekki rökin fyrir því. Mér fyndist allt í lagi að einhver sem framleiðir gin eða annað sterkt áfengi mætti líka selja það. Ég beini því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar — eða er það atvinnuveganefnd? Allsherjar- og menntamálanefnd fjallar um þetta mál, en það mætti velta því fyrir sér hvort það ætti jafnvel heima í atvinnuveganefnd í ljósi þess hvað um ræðir. En það er kannski ekki aðalmálið. En ég myndi beina því til hv. nefndar að velta því aðeins fyrir sér.

Hér hefur verið rætt um netsöluna sem er auðvitað mjög skýrt dæmi um mismunun gagnvart innlendum framleiðendum. Maður getur pantað sér áfengi á netinu, og auðvitað eiga að vera í kringum það einhverjar reglur, frá erlendum framleiðanda en ekki innlendum framleiðanda. Það er bara asnalegt. Mér fyndist full ástæða til að nefndin skoðaði jafnframt þá þætti.

Að því sögðu held ég að stóra málið sé að stíga einhver skref og ég hygg að við ættum flest að geta verið sammála um það að hér sé verið að tala um mikilvægt skref sem ætti ekki að hafa áhrif, alla vega mjög takmörkuð áhrif, á það umræðuefni eða rifrildi sem oft hefur verið hér gagnvart áfengi og lýðheilsumálum. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að efla lýðheilsu landans og mikilvægi þess að það sé rammi í kringum ákveðna þætti og við stundum ákveðna forvarnastarfsemi með því að miðla fræðslu til fólks. En það er bara svo margt sem getur verið óhollt í þessu lífi og eiginlega er allt óhollt í óhófi, þannig að við treystum einstaklingnum fyrir að taka sínar ákvarðanir en eðlilegt að réttar upplýsingar liggi fyrir.

Virðulegur forseti. Ég ætla að hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að klára frumvarpið á þessu þingi því að undir er mjög mikilvæg atvinnustarfsemi og fjöldi starfa og tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu.