151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að mega vinna eða mega ekki vinna á ekki að vera spurningin, heldur á hver og einn að hafa rétt til að vinna eftir getu og það án skerðingar eða keðjuverkandi skerðinga. Eigum við Íslendingar að vera stolt af öllu almannatryggingakerfinu eins og fjármála- og efnahagsráðherra sagði í viðræðum við mig um lífeyrissjóðsmál í gær? Eigum við að vera stolt af kerfi sem skattar og skerðir stóran hóp öryrkja og eldri borgara ekki bara í fátækt heldur í sárafátækt? Eigum við að vera stolt af kerfi sem hæstv. fjármálaráðherra segir að hafi stigið risastórt skref nánast á hverju ári undanfarin ár þannig að t.d. frá árinu 2015 hafi ráðstöfunartekjur þeirra sem þiggja bætur frá almannatryggingum aukist að meðaltali um 25%? Þeirra sem þiggja bætur frá almannatryggingakerfinu, segir hæstv. fjármálaráðherra. Þetta eru bara ótíndir bótaþegar í augum hans og eiga að þakka fyrir kaupmáttaraukningu bótaþega um 25% frá 2015. Stoltur segir hann að þetta séu ótrúlegar framfarir á ekki lengri tíma.

Lífeyrissjóðslaun eru lögþvingaður og eignaupptökuvarinn sparnaður, að stærstum hluta fjármagnstekjur. Aðrar greiðslur almannatrygginga eru áunnin réttindi, ekki bætur. 25% hækkun á 200.000 kr. á mánuði er 50.000 kr., og gefur 250.000 kr. á mánuði fyrir skatt og er því vel undir fátæktarmörkum, sárafátæktar, eftir skatt. Hjá launamanni með eina milljón eru það 250.000 kr., eða sama tala og bótaþegi fær, hæstv. fjármálaráðherra, til að tóra á fyrir skatta og skerðingar. Þá segir fjármálaráðherra að kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna, af þeim sem fá bætur frá almannatryggingum, hafi batnað hraðast á undanförnum árum. Kjör þeirra hafi batnað hraðar en þeirra sem hafa meira á milli handanna og þiggja þó eitthvað úr almannatryggingakerfinu. Öryrkjar og eldri borgarar séu þiggjendur, bótaþegar, í boði ríkisins.