151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Alþjóðaþingmannasambandið 2020.

494. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. ÍAÞ (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar fundi sem Alþjóðaþingmannasambandið hefur haldið, eða verið einhvers konar aðili að, þarna er Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin nefnd og Sameinuðu þjóðirnar, þá held ég að mér sé óhætt að segja að átt sé við alla þingmenn. Ég þekki það ekki hvernig það hefur verið auglýst fyrir þingmönnum. En þetta er auðvitað haldið af Sameinuðu þjóðunum líka þannig að tilkynningar um þetta hverfa kannski í hafið, það eru svo margar ráðstefnur haldnar. Ég held alveg örugglega að verið sé að vísa í það að allir þingmenn geti tekið þátt í þessum fundum Sameinuðu þjóðanna. Ég held að mjög margar ráðstefnur af hálfu Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári hafi verið opnar öllum. Það er hins vegar ágætt að taka aðeins til í þeim ranni og fara aðeins yfir það hvernig athygli þingmanna hér á landi er vakin á hinum ýmsu ráðstefnum sem haldnar eru og standa öðrum til boða en einungis þeim þingmönnum sem taka þátt í viðkomandi þingstarfi. Þeir eru auðvitað fjölmargir og ég held að þeim hafi einmitt fjölgað við fjarfundafyrirkomulagið á síðasta ári. Það er fullt tilefni til að skoða það. Virðulegur forseti, sem nú situr í forsetastóli, gæti kannski tekið tillit til þess í því starfi sem hann heldur utan um þessa dagana.

Varðandi skýrslurnar verð ég að játa að ég þekki ekki nákvæmlega þessar yfirlýsingar. Ég þekki þá um heimsfaraldurinn, Covid, en ég gæti jafnvel haldið að það sé ekki yfirlýsing forseta um heimsfaraldurinn heldur yfirlýsing undirstofnana og það kann að vera að það eigi líka við um ástandið í Malí eða útrýmingu kjarnavopna. Því miður get ég ekki svarað nákvæmlega fyrir um efni þeirra.