151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

meðferð sakamála.

129. mál
[16:39]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir spurninguna sem ég taldi mig reyndar svara í ræðunni en fínt að fá að skýra það betur. Eins og ég sagði er hægt undir núverandi lagaumhverfi að fara fram á lokuð réttarhöld ef hagsmunir einstaklinga, svo sem vitna eða brotaþola, stangast á við upplýsingaskyldu til almennings. Við erum þannig með þessa aðila sem starfa í því umboði sem þeim var treyst fyrir í dómskerfinu til að vega og meta hvort það séu þung, sterk og veigamikil rök fyrir því að banna myndatökur og fréttaflutning tengdan málsmeðferðinni. Ef ég svara hv. þingmanni bara beint: Ég lít svo á að við séum nú þegar með varnagla hvað varðar tilfelli eins og hv. þingmaður ber upp og sé ekki hvernig þetta frumvarp leysir nokkuð ef við erum nú þegar með fyrirkomulag sem getur tekið á kringumstæðum eins og þeim sem hv. þingmaður vísar til. Hvað varðar myndatökur, eins og ég kom aðeins inn á í ræðunni, þá myndu fjölmiðlar bara myndskreyta fréttirnar á annan hátt. Þá snýst það svolítið um nákvæmni, bara ákveðin vönduð vinnubrögð sem við köllum eftir og viljum að fjölmiðlar hafi og geti sinnt sínu lögbundna hlutverki og að það séu ekki bara, afsakið slettuna, með leyfi forseta, „stock footage“-myndir þegar verið er að fjalla um mjög mikilvæg mál sem varða almenning.