151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar sérstaklega til að þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum kristallast einmitt í drættinum á skilum uppfærðra landsmarkmiða. Að þeim hafi síðan verið skilað einmitt í dag, verulegt undrunarefni, er væntanlega vegna tilkomu þessarar umræðu og er auðvitað sérstaklega lýsandi fyrir þessa ríkisstjórn. Hér sést enn einu sinni hvernig stjórnarandstaðan dregur vagninn í mikilvægum málum og vekur ríkisstjórnina reglulega af værum blundi.

Það er jákvætt sem fram kemur í uppfærðum markmiðum að Ísland taki þátt í að ná 55% samdrætti í mengandi losun fyrir árið 2030. Það er líka jákvætt að sjá að stærstur hluti markmiðanna er tekinn beint frá Evrópusambandinu sem hefur verið leiðandi á þessu sviði. Gott að við fylgjum fordæmi þess. Hvernig stefnt er að því að ná þessum markmiðum er aftur á móti algjörlega á huldu þegar heildarlosun á Íslandi dróst saman um 15% á milli 1990 og 2016 en jókst síðan aftur á milli 2016 og 2017. Skrefin sem ríkisstjórnin hefur tekið á kjörtímabilinu hafa ekki verið nógu stór, það verður að horfast í augu við það. Þar hefur samdráttur mengandi losunar á einkamarkaði spilað miklu stærri rullu en aðgerðir stjórnvalda. Atvinnulífið er því að gera mikið og getur gert mun meira. Þess vegna var líka undarlegt að ekki væri gert ráð fyrir aðkomu atvinnulífsins sjálfs í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem var birt um mitt síðasta ár. Með tilkomu uppfærðra landsmarkmiða er komin ástæða fyrir ríkisstjórnina að uppfæra aðgerðaáætlun sína í samræmi við hin nýju markmið. Þá getur hún notað tækifærið og uppfært aðgerðirnar sjálfar líka, dregið einkamarkaði, atvinnulífið og fólkið í landinu með sér í þetta nauðsynlega verkefni með grænum hvötum og öðrum leiðum. Þessir aðilar virðast eiga auðveldara með að láta aðgerðirnar sjálfar tala. Atvinnulífið lætur verkin tala á meðan ríkisstjórnin sjálf bara talar í þessu máli sem öðrum.