151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[17:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og fyrir að leggja fram þetta mikilvæga mál vegna þess að hér er í rauninni verið að taka á úrlausnarefni sem mjög tímabært er að taka á. Hér er fyrst og fremst átt við lögaðila eins og hæstv. ráðherra kom inn á.

Það sem mig langar að velta upp er hvort við undirbúning frumvarpsins hafi farið fram einhverjar vangaveltur um hvort þyrfti, annaðhvort í þessu frumvarpi eða einhverjum öðrum, að taka líka á nýtingu einstaklinga á löndum ríkisins, hvort það ætti þá jafnvel frekar heima í einhverjum öðrum lagabálkum eða væri kannski bara alger óþarfi að taka það til. Nú stígur frumvarpið, eins og ráðherra kom inn á, í raun í engu á almannaréttinn sem ég tel að sé afar mikilvægt. Engu að síður geta alla vega verið dæmi um það að einstaklingar noti land ríkisins sér til hagsbóta, skulum við segja, án þess að það sé kannski beinlínis í atvinnuskyni og þá ekki sem lögaðilar. Ég spyr hvort þessi umræða hafi komið upp í vinnunni við frumvarpið.