151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[17:09]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni og vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguna. Þetta frumvarp finnst mér allrar athygli vert og tímabært að gera atlögu að því að koma á samræmdum reglum eða ramma um nýtingu lands í eigu ríkisins í atvinnuskyni, reglum sem gætu raunar líka nýst sveitarfélögum. Ef vel tekst til gæti frumvarpið leitt til nýsköpunar og nýrra atvinnutækifæra vítt og breitt um landið. Fram til þessa hefur fyrst og fremst reynt á reglur af þessu tagi í þjóðgörðum og þar hafa verið stigin skref við að koma á reglum af þessu tagi með lögum og við útfærslu á atvinnustefnu. Sú útfærsla hefur á köflum sætt nokkurri gagnrýni. Það er mikilvægt að horfa til þess við meðferð málsins.

Eins og áður sagði finnst mér frumvarpið tímabært en á sama hátt er mikilvægt að vanda til verka við að koma á nýrri umgjörð þar sem lagður verður grunnur sem hefur áhrif til framtíðar á starfsumhverfi þeirra sem nýta náttúruna við atvinnusköpun. Verið er að byggja grunn sem á vonandi eftir að standa ef vel heppnast. Við samþykkt frumvarpsins í þingflokki mínum gerði ég fyrirvara um að ég sjái ekki að í frumvarpinu sé tryggt að nýting og aðgengi að landsvæðum í eigu ríkisins tryggi hagsmuni nærsamfélaga af nýtingunni. Ekki verður heldur séð að sveitarfélögum þar sem þessi svæði eru, sé tryggð eðlileg hlutdeild í þeim tekjum sem gætu skapast af nýtingunni. Þá tel ég einnig óljóst hver áhrif þessara laga á nýtingu og ábúð á ríkisjörðum gætu orðið til lengri tíma litið. Mér finnst mikilvægt að horft verði á þessi atriði í meðferð fjárlaganefndar á málinu. Ég er engan veginn viss um að áhrifin af nýtingu og ábúð á ríkisjörðum þurfi að vera neikvæð en ég held að mjög mikilvægt sé að reyna að greina þau áhrif í meðförum nefndarinnar.

Af því að ég er farin að ræða um fjárlaganefnd finnst mér efni frumvarpsins augljóslega snerta málefnasvið annarra nefnda, t.d. bæði umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar. Því má velta því upp hvort leita þyrfti umsagna hjá fleiri nefndum, þótt ég geri enga athugasemd við það að fjárlaganefnd fái málið til sín. Eins er mikilvægt að leita umsagna víða, frá stofnunum tengdum umhverfisráðuneytinu, ferðaþjónustunni, sveitarfélögunum, bændum og fleirum þeim sem nýta land núna.

Frumvarpið er spennandi og ótal vangaveltur vakna við hraðyfirferð á því, t.d. um það hver fer með umsýslu samninga um land sem er í umsjá Umhverfisstofnunar, þjóðgarða, Skógræktarinnar eða Landgræðslunnar. Ég sá ekki í fljótu bragði neitt minnst t.d. á Skógræktina. Ég tel raunar að nú þegar hafi reynt á úthlutun gæða af þessu tagi í þjóðskógunum. Þá koma líka upp spurningar eins og: Hvert renna tekjurnar ef um tekjur er að ræða? Fara þær þá til viðkomandi stofnana? Og hvernig er bókhaldsmeðferðin á sértekjum sem yrðu til? Augljóst er að ef þessi úthlutun gæða fer fram innan þjóðgarðs eða t.d. hjá Skógræktinni, þar sem er starfandi skógarvörður, þá er einhver eftirlitsaðili á svæðinu. En hver færi með eftirlit með framkvæmdinni á ríkisjörð eða þjóðlendu? Það eru svona spurningar sem vakna. Eins vakna spurningar um aðgengi að landinu. Það eru náttúrlega víða um land svæði í eigu ríkisins sem ekki eru í vegasambandi, bæði jarðir og svæði upp til fjalla.

En aftur að fyrirvaranum, sem snýst um hvort mögulegt sé að tryggja að land skili tekjum til nærsamfélagsins á hverjum stað. Land og tækifæri til nýtingar þess eru jú undirstaða fyrir búsetu í strjálbýli. Ég átta mig vel á því að erfitt getur verið að horfa á lögheimili fyrirtækja við úthlutun takmarkaðra gæða, en ég velti fyrir mér hvort hægt væri að gera kröfu um að verkefnið skapaði ákveðin umsvif í nærsamfélaginu þar sem landið er sem er nýtt. Ef forgangsraða þarf við úthlutun gætu þau fyrirtæki sem skapa fleiri störf í nærsamfélaginu a.m.k. notið þess við úthlutunina hvar sem lögheimili verkefnisins er. Og ef fyrirtæki skapar störf og þau verða til í nærsamfélaginu skapast velta þar og tekjur til sveitarfélagsins eru tryggðar. Ég held að mikilvægt sé að skoða þetta atriði ofan í kjölinn. Það mætti líka að horfa til þess hvort viðkomandi fyrirtæki kaupa einhverja þjónustu á svæðinu eða hafa einhver önnur umsvif og horfa til þess við val á tilboðum ef velja þarf á milli. Eitt af meginmarkmiðunum sem horft var til við gerð frumvarpsins var jú að tryggja að samfélagið í heild hefði hagsmuni af nýtingu, af aðgengi að svæðum í eigu ríkisins. Því finnst mér eðlilegt að horft sé til hagsmuna nærsamfélagsins á sama hátt ef einhver leið finnst til þess.

Ég ætlaði svo sem ekki að hafa þetta mikið lengra þótt af nógu sé að taka. Ég vil ítreka að ég tel að þetta frumvarp gæti leitt af sér fjölbreyttari atvinnutækifæri í dreifbýlinu og nýsköpun í atvinnu þar ásamt því að tryggja að ekki verði gengið á gæði landsins og það verði ekki nýtt meira en burðarþol þess leyfir. Þetta er því mjög mikilvægt mál þar sem verið hefur vaxandi ásókn í nýtingu lands í tengslum við ferðaþjónustuna. Svo megum við heldur ekki gleyma því að Íslendingum fjölgar stöðugt og nú eru þeir t.d. tvöfalt fleiri en þegar ég fæddist. Nýtingin á landi er auðvitað allt önnur en hún var hér áður fyrr. En ég ítreka að þetta er mjög mikilvægt mál sem mikilvægt er að rýna vel í meðförum þingsins.