151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[17:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér meira í þessa umræðu og vil taka það fram í upphafi að ég tel framlagningu þessa máls mjög tímabæra. Við erum hér í vissum skilningi að stíga mjög ákveðin skref í stýrðri auðlindanýtingu sem er afar mikilvægt. Eftir því sem frumvarpið er sett upp er gert ráð fyrir því að það sé eðlilegt að um nýtingu á landi séu gerðir samningar og um hana gildi ákvæði um að ríkið fái greitt fyrir not af landi sínu. Ég vil sérstaklega taka til þess að í frumvarpinu er talað um, eins og í 1. mgr. 1. gr., að stuðla að hagkvæmri nýtingu, sjálfbærni, aðgengi og uppbyggingu innviða og atvinnulífs í landinu og síðan að gætt sé jafnræðis, hlutlægni og gagnsæis. Þetta eru allt mjög mikilvæg atriði vegna þess að ef við trúum því í alvöru að landið okkar sé dýrmæt auðlind í sjálfu sér og að sá atvinnuvegur sem „nýtir“ landið, þ.e. landið og miðin, skulum við segja, í þeim tilgangi að sýna landið og njóta þess með þeim hætti, þá hljótum við að líta á þá auðlind eins og hverja aðra auðlind sem er eðlilegt að ríkið reyni að tryggja að almenningur í landinu njóti hags af.

Ég hef áður rætt það, ég man ekki hvort ég hef rætt það í ræðustól þingsins, á opinberum vettvangi að nokkur lönd hafa stigið mjög markviss skref í þessu, og raunar er þess getið í greinargerð frumvarpsins, sérstaklega með Nýja-Sjáland og Noreg, og hafa farið það sem sumir myndu kalla stífar leiðir í að stýra aðgengi, sérstaklega að vinsælum ferðamannastöðum eða vinsælum náttúruperlum og þá kannski í meira en einum tilgangi, ekki bara í þeim tilgangi að vernda staðinn heldur líka í þeim tilgangi að tryggja upplifun þeirra sem nota og njóta. Það skiptir ekki minna máli. Ég get t.d. nefnt að í a.m.k. sumum þjóðgörðum á Nýja-Sjálandi er gönguleiðin í gegnum þjóðgarðinn einstefna til að tryggja að ferðamenn sem ganga þar um og njóta náttúrunnar séu ekki stöðugt að mæta einhverjum og fái á tilfinninguna að það sé fullt af fólki að koma á móti þeim og fullt af fólki þramma yfir garðinn á sama tíma. Þannig að það eru til leiðir og það er ánægjulegt að sjá að við skulum stíga þessi skref.

Þetta hjálpar líka til við alla áætlunargerð, ekki bara ríkisins heldur ekki síður þeirra aðila sem sinna þessari þjónustu. Fyrirsjáanleiki er hugtak sem hefur verið kallað mikið eftir, sérstaklega á undangengnu ári, þó að kannski sé ekki alltaf hægt að verða við því. En það einmitt skiptir svo miklu máli í rekstri eins og þessum að menn viti það til að mynda hvort þeir hafi aðgang að tilteknu svæði, hvað margir mega fara inn á tiltekin svæði o.s.frv. Og ekki síður er mikilvægt út af þáttum eins og nýliðun og tækifærum manna til að koma inn í þessa starfsemi að jafnræðis og gagnsæis sé gætt við úthlutun leyfa. Það skiptir gríðarlega miklu máli og er til að mynda eitt af því sem mun væntanlega vega þungt í umfjöllun nefndarinnar.

Við einn yfirlestur á frumvarpinu kann að vera að manni hafi yfirsést hlutir eins og t.d. hvort það sé með einhverju móti tekið til sérstöðu heimamanna eða sérstöðu þeirra sem búa í annaðhvort viðkomandi sveitarfélagi eða hafa þegar atvinnurekstur í tengslum við eignir ríkisins, þótt það sé ekki beinlínis við eða á eignum ríkisins. En það eru væntanlega atriði sem hefur verið komið inn á í vinnu nefndarinnar.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi: Ég tel að það sé mjög tímabært að þetta mál komi fram og vona að hv. fjárlaganefnd, væntanlega, ljúki að vinna þetta mál og komi því aftur inn í þingsali.