151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þann 14. desember sl. svaraði hæstv. forsætisráðherra mér í óundirbúnum fyrirspurnatíma að verið væri að skoða mál atvinnulausra í félagsmálaráðuneytinu og ætlunin væri að fara yfir sviðið og skoða hvað kæmi atvinnulausum best. Þetta var 14. desember og í dag er 24. febrúar og ekkert að frétta af aðgerðum stjórnvalda. En það berast fréttir af því að atvinnuleysi sé að aukast og að neyðin blasi við fólki sem nýtt hefur atvinnuleysistímabilið til fulls og þarf að leita í fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og til hjálparstofnana eftir mat. Heildaratvinnuleysi á landinu öllu var 12,8% í janúar. Á Suðurnesjum var talan komin upp í 26%. Atvinnuleysi meðal kvenna á Suðurnesjum 29,1% og 24% meðal karla. Þetta er mjög alvarleg staða. Fólk er orðið langþreytt á að bíða eftir aðstoð frá stjórnvöldum. Svo virðist sem það sé vilji stjórnvalda að landshlutinn beri þyngstu byrðarnar í heimsfaraldrinum.

Við í Samfylkingunni höfum ítrekað lagt fram tillögur að lausnum, m.a. um lengri tímabil atvinnuleysisbóta, en þær hafa jafnharðan verið felldar af stjórnarflokkunum. Allir vita að langtímaatvinnuleysi hefur slæm félagsleg og efnahagsleg áhrif og hefur líka áhrif á heilsu fólks. Því fylgir álag á heilsugæsluna. Heilsugæslustöðin á Suðurnesjum hefur verið fjársvelt lengi. Það er heilsugæslustöð sem á að sinna um 28.000 manns; 8% þjóðarinnar á einni heilsugæslustöð. Hvers vegna er hæstv. ráðherra heilbrigðis- og vinnumarkaðsmála ekki með augun á Suðurnesjum og að kynna til leiks sértækar aðgerðir sem munar um? Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir verða að leggjast á árarnar með sveitarstjórnarmönnum á svæðinu og Suðurnesjamönnum. Það verða allir að róa í sömu átt til að lágmarka skaðann.