151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:27]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Störfin hér á Alþingi ganga ágætlega. Skipulögð dagskrá hæstv. forseta gengur vel; stjórnarmál, þingmannamál, fyrirspurnir, skýrslur og sérstakar umræður rúmast í breyttu skipulagi. Almenn umræða hverfist mikið um bólusetningar hér og annars staðar í heiminum enda algjört lykilatriði í baráttu við veiruna. Það birtir af degi, tilslakanir eru gerðar innan lands. Það hillir undir að daglegt líf komist í eðlilegra horf, félagslíf, skólar, atvinnulíf og efnahagur. Þjóðin hefur sameinast í verkefninu og náð samstöðu í sóttvörnum og við höfum síðastliðið ár brugðist við efnahagslegum afleiðingum með fjölmörgum aðgerðum sem birtast í fimm fjáraukum, bandormum, sérlögum, fjárlögum. Vikið hefur verið frá fjármálareglum og svigrúm til skuldsetningar ríkissjóðs hefur verið aukið. Ekkert hik. Þó er enn atvinnuleysi, tekjufall og sjóðþurrð hjá fjölmörgum heimilum, misþungt eftir landshlutum og atvinnugreinum. Við eigum mikið undir að allir hafi orku til að taka þátt í viðspyrnunni fram undan.

Virðulegur forseti. Hættan er sú næstu þrjá til fjóra mánuði, og kosningar hafa áhrif hér, að við föllum í þá gryfju að bíða. Það eru þekkt viðbrögð á lokamínútum í fótboltaleik. Liðið hefur barist rosalega í 85 mínútur. Leikurinn stendur í 90 mínútur plús. Þjóðin er 1:0 yfir, liðið bakkar, fer að bíða, fer að horfa á dómarann og klukkuna. Einhver kallar: Einbeiting. Gott og vel og verðugt. En hún verður að vera á réttu hlutina; ekki á prófkjör, ekki á kosningar eða hækkandi sól, jafnvel ekki á stjórnarsáttmálann, sem við höfum uppfyllt nánast í heilu lagi, heldur á atvinnulífið, heimilin og fyrirtækin, sumarstörfin fyrir skólafólkið, virkni þeirra sem eru atvinnulausir, að allir verði tilbúnir að taka við ferðamönnum þegar þeir koma. Það snýst um að auka kraft og framlengja úrræði sem hafa virkað, en ekki fjárhæðirnar í stóra skuldasamhenginu.

Virðulegi forseti. Við þurfum að klára leikinn fyrir heimilin, fyrir fyrirtækin, og viðspyrnuna fyrir íslenskan efnahag.