151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008.

352. mál
[15:40]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er mikil skýrsla að vöxtum. Ég vil byrja á því að hrósa þeim sem að skýrslunni unnu fyrir framsetningu hennar, sem er aðgengileg. Maður sér það í inngangi skýrslunnar að þeir sem hafa um hana vélað hafa velt því mjög fyrir sér hvernig væri best að nálgast viðfangsefnið og mér sýnist að niðurstaðan sé mjög gagnleg. Auðvitað er skýrslan, og það er tekið fram í inngangi hennar líka, samin af stjórnsýslunni, hún er samin í ráðuneytunum og eftir atvikum þeim stofnunum sem um er fjallað, a.m.k. er leitað til þeirra. Án þess að ég vilji á nokkurn hátt hér á þessu stigi gera innihald skýrslunnar með nokkrum hætti tortryggilegt er það auðvitað fólk sem málið er skylt og hefur jafnvel komið að málum í fortíð sem vinnur að skýrslunni. Að því sögðu sé ég enga sérstaka ástæðu til að bera neinar brigður á efni skýrslunnar og er alls ekki að gera það.

Ef óskað er eftir skýrslum og samantektum þekkjum við það sem hér störfum, og svo sem þekkist það víðar, að skýrslur eru gerðar og síðan gerist harla lítið með þær. Ég hugsa að grunnhugmynd hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar hafi verið að reyna að fullvissa sig um að svo væri gert og að hægt væri að ganga úr skugga um að svo væri gert. Það leiðir hugann að því almennt að þegar svona samantektir eru gerðar, af hvaða tagi sem er, ætti auðvitað annaðhvort að vera aðgerðalisti í þeim sjálfum sem hægt væri að fylgjast með eða þá að þeir sem skýrslan beinist að fái strax það verkefni að setja saman slíkan verkefnalista til að vinna úr viðkomandi skýrslu og ábendingum sem þar kunna að vera, einmitt þannig að hægt sé að fylgjast með og ganga úr skugga um að þau verk séu unnin. Það verður auðvitað að segjast eins og er að ekki er á hvers manns færi að lesa öll þau bindi sem eru undir í þessari skýrslu, sem er 5.000 blaðsíður, minnir mig að hafi komið fram, í 20 bindum. Það er svolítið erfitt að haka við sjálfur að allt hafi verið gert.

En svo við snúum okkur aðeins að efni þessarar ágætu samantektar kemur auðvitað í ljós, og það er mjög ánægjulegt, að langstærstur hluti þeirra ábendinga sem koma fram í rannsóknarskýrslunum hefur verið tekinn til greina og verið framfylgt með ýmsum hætti. Út af standa, og á því eru í einhverjum tilvikum auðvitað gefnar tilteknar skýringar, nokkrar ábendingar þar sem svarið er: Nei, það hefur ekkert verið gert. Auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að rýna það sérstaklega, þ.e. hverjar séu orsakir þess að ekki hefur verið aðhafst, hvort menn hafi þá enga þörf talið á því eða að aðstæður hafi breyst o.s.frv. Þá er maður að minnsta kosti komin með í hendurnar smáyfirlit yfir það sem út af stendur að því marki. Síðan eru auðvitað nokkur atriði þarna, þau eru svo sem ekki mjög mörg, það eru 15–20 atriði í allri skýrslunni, þar sem svarið er já að hluta, já að vissu leyti og já að því marki sem það á við. Þarna er sjálfsagt eitthvert túlkunarsvigrúm sem er mikilvægt að líta betur á og fara yfir.

Auðvitað hefur gríðarlega margt breyst frá því að hrunið varð sem var tilefni allra þessara skýrslna. Að mínu mati þjónar það í sjálfu sér ekki stórum tilgangi að fara þangað aftur og velta því fyrir sér beinlínis hvað fór úrskeiðis, heldur miklu frekar þetta: Hverju höfum við breytt? Hvernig hefur verið brugðist við? Ég held að við höfum að mjög mörgu leyti brugðist vel við og sett undir ýmsa leka. Við hugsum kannski hlutina aðeins öðruvísi. Við erum orðin formfastari í stjórnsýslunni og ákvörðunum okkar. Við beitum stefnumótun af meiri krafti og við beitum líka tólum sem vega og meta kosti og galla.

Fyrri ræðumenn hafa farið yfir ýmis atriði í löggjöfinni og ég ætla svo sem ekkert að endurtaka það. Svo er auðvitað annað sem er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur hvað við höfum gert til að bregðast við því áfalli sem við urðum fyrir — við höfum gert það að mörgu leyti vel, það kemur fram í þessari skýrslu — það er nánast öruggt að við verðum fyrir einhvers konar áfalli í efnahagsmálum. Við getum alltaf dregið úr líkunum á því með því að vera vel á varðbergi og fylgjast vel með allri þróun og við höfum auðvitað alltaf tól og tæki til að reyna að gera það. Við héldum það svo sem líka á þeim tíma þegar við fórum út af sporinu. En það sem við getum þó verið viss um er að næsta áfall verður ekki eins og það síðasta. Það verður öðruvísi þótt ekki væri nema af þeirri ástæðu að við höfum breytt alls konar leikreglum til að reyna að koma fyrir að það verði eins hrun. En það þýðir ekki að það geti ekki orðið með öðrum hætti.

Mér finnst þetta allt vera mjög gott tilefni til að við brýnum okkur öll til að allt sem við gerum, öll stefnumótun og allar ákvarðanir, þurfi að vera vel ígrundaðar. Við þurfum að fylgjast vel með þróun ýmissa hluta. Við vitum að reglur af ýmsu tagi koma aldrei í veg fyrir að með einhverjum hætti verði slys, annaðhvort af ásettu ráði eða að aðstæður verði þannig í samfélaginu að það gerist. Mér finnst lærdómurinn af þessu öllu fyrst og fremst vera sá að við þurfum alltaf að vera á varðbergi og við þurfum alltaf að vanda okkur og vera undir það búin að takast á við alls konar aðstæður.

Ég er alveg sannfærður um að við erum betur í stakk búin almennt séð, þ.e. við höfum gert ýmsar strúktúrbreytingar. Við höfum líka aðeins breytt hugsunarhætti þannig, held ég og vona í það minnsta, að við viljum haga okkur með þeim hætti (Forseti hringir.) að við gerum allt sem hægt er til að koma í veg fyrir áföll af svipuðum toga.