151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi.

560. mál
[14:41]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að bæta því við hér, vegna þeirrar óvissu og óróleika sem heilbrigðisyfirvöldum hefur tekist að skapa um þetta mál meðal kvenna, meðal aðstandenda kvenna og meðal fagfólks í heilbrigðiskerfinu, að ég hvet hæstv. ráðherra heilbrigðismála til að beita sér fyrir því að það taki ekki þær tíu vikur að vinna þessa skýrslu sem þingsköp kveða á um. Það er nefnilega ekki bara sérkennilegt, það er eiginlega óskiljanlegt að þær upplýsingar sem beðið er um í þessari skýrslu hafi ekki legið til grundvallar þeirri ákvörðun sem heilbrigðisráðherra tók um þessi mál, að það þurfi að kalla eftir þeim eftir á og að það taki tvo og hálfan mánuð að skila þeim í skýrsluformi til þingsins.