151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

efling íslenskukennslu fyrir innflytjendur og fullorðinsfræðslu.

515. mál
[14:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að koma hér til fundar við mig og svara fyrirspurn um íslenskukennslu fyrir innflytjendur og fullorðinsfræðslu eða framhaldsfræðslu. Atvinnuleysi hér á landi er það mesta á Norðurlöndum um þessar mundir, í fyrsta skipti á síðustu áratugum og sennilega í fyrsta skipti í sögunni. Yfir 20.000 manns eru atvinnulausir og 40% þeirra eru af erlendum uppruna. Það fólk missir atvinnuna fyrst og hátt í 40.000 erlendir ríkisborgarar hafa verið á vinnumarkaðnum hér á landi undanfarin ár og því ljóst að hlutfall þeirra í þessu tilliti er hátt.

Það er mikil þörf á úrræðum fyrir atvinnuleitendur af erlendum uppruna, hvort sem það er íslenskunám, íslenskutengt starfsnám eða starfstengdar námsleiðir og þarf ekki atvinnuleysi til. Flest bendir til þess að við höfum ekki skapað sterka umgjörð um þessi mikilvægu atriði og komið hefur fram að íslenskunám fyrir útlendinga hefur verið í fjársvelti í langan tíma. Hækkun á framlögum til þessara atriða hefur ekki skilað sér og hefur verið óbreytt á kennslustund og nemendastund í nokkuð langan tíma. Endurspeglar þetta virkilega áherslur ráðherra í þessum málaflokki? Við höfum margoft heyrt klisjur um að nauðsynlegt sé að efla íslenskukennslu fyrir erlenda borgara sem hér dvelja og vilja vinna og búa. Þurfum við ekki að endurskoða ýmis atriði á þessari vegferð, t.d. hvað varðar kostnaðinn fyrir þátttakendur? Er hann ekki þröskuldur? Það kostar 45.000 kr. fyrir hvert námskeið fyrir útlendinga. Er það ekki bein hindrun? Það kostar líka 25.000 kr. fyrir þann sem vill sækja sér íslenskan ríkisborgararétt og sækir íslenskunámskeið til að uppfylla kröfur.

Víða er skortur á sérhæfðu fagfólki í íslensku atvinnulífi, eða svo hefur verið, og brotalamir varðandi viðurkenningu á prófgráðum, réttindum og færni innflytjenda. Raunfærnimatið er ein af þeim leiðum sem færar eru til að bæta þar úr. Það útheimtir hins vegar fyrirhöfn, skipulag og kostnað, t.d. túlkaþjónustu og ýmsa eftirfylgni. Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta þar úr? Nú duga ekki óljós loforð eða markmið. Það þarf að taka til hendinni og nú eru aðstæður þannig að vinna þarf hratt. Við höfum innviðina klára. Framhaldsfræðslan, fullorðinsfræðslan og símenntunarmiðstöðvarnar um allt land eru reiðubúnar, það sem á skortir er að ráðherra taki af skarið og sýni í verki að hún meini það sem hún gefur til kynna í orðum og móti stefnu sem er skýr. Hyggst ráðherra beita sér í því og veita til þess þeim miðlum sem nauðsynlegir eru, sem eru fjármunir?