151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurskoðun almannatryggingakerfisins.

[13:33]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Forseti. Þeim 4 milljörðum sem ætlunin var að setja í þetta á þessu kjörtímabili hefur sannarlega verið ráðstafað með lagabreytingum hér á þinginu. Í tvígang höfum við samþykkt lagabreytingar sem lúta að þessum hópi þar sem þetta fjármagn rann til þeirra aðgerða sem þær lagabreytingar gerðu ráð fyrir. Ég deili skoðun hv. þingmanns á mikilvægi þess að gera kerfisbreytingar, einfalda kerfið en fara um leið yfir markmiðin, tilganginn; koma fólki í virkni, halda fólki í virkni, ná fram samfélagsbreytingum samhliða. Þess vegna voru það mér ákveðin vonbrigði að við skyldum ekki ná samstöðu um það sem mínar væntingar stóðu til vegna þess að við vorum búin að teygja okkur mjög langt til Öryrkjabandalagsins og þeirra sjónarmiða sem það hafði sett fram í þeirri vinnu. Það er hins vegar mikilvægt að halda þessu áfram og ég tel að við eigum að ráðast í uppstokkun á kerfinu. Það mun bæta kjör þessa fólks. Það mun bæta kjör þessa hóps og það mun líka draga úr nýgengi. Við viljum breyta kerfinu okkar þannig að við aðstoðum fólk við að vera í virkni, vera í vinnu, sækja fram og taka þátt í samfélaginu.