151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[13:51]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir umræðuna og sömuleiðis hæstv. ráðherra. Þegar ég var að undirbúa mig undir umræðuna rak ég augun í skýrsluna sem hæstv. ráðherra ræddi hér um áðan, sem var skrifuð af starfshópi á vegum ráðuneytisins. Þar er að finna ágætistillögur. Það er vissulega rétt að mál einstaklinga með ákominn heilaskaða falla undir mörg ráðuneyti. Þess vegna er spurning málshefjanda, um hvernig þverfaglegu endurhæfingarsamstarfi miði, mjög góð. Eins og með svo mörg annars konar áföll er endurhæfingin í nokkuð góðum farvegi en svo virðist vanta að eftirfylgni virki í raun. Það er erfitt að setja endurhæfingu upp í tímalínu vegna þess að þetta tekur allt mismunandi langan tíma eftir því hvernig einstaklingurinn er.

Mér líst ágætlega á tillögur starfshópsins og það væri mjög gott ef hægt væri að vinna þær áfram og auka eftirfylgni, efla hópmeðferð, efla forvarnir og fræðslu. Þetta eru allt mikilvægar tillögur. Ég vil þó benda á það eina sem mér fannst skorta í þessari skýrslu. Mér fannst vanta landsbyggðarvinkil inn í þetta. Það er fjallað um Reykjalund og það er fjallað um Landspítala en við verðum að hugsa aðeins víðar en það. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvernig hún hyggist mæta því.