151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um mikilsvert málefni og kannski ekki hvað síst það að lyfta endurhæfingu upp sem mikilvægu úrræði í heilbrigðiskerfinu. Það á við um þennan sjúkdómaflokk eins og aðra. Það hefur sem betur fer orðið hreyfing á endurhæfingarmálum í landinu undanfarin misseri, sérstaklega með auknu samstarfi Reykjalundar og Grensásdeildar. En auðvitað er endurhæfing líka unnin á mörgum öðrum stöðum og þá kannski sérstaklega á heilsustofnunum eins og Kristnesi og á heilbrigðisstofnunum úti um allt land. En svona sérhæfð verkefni eru fyrst og fremst unnin á þessum tiltölulega fáu stöðum og framhaldsmeðferð kannski annars staðar.

Nú er unnið að því máli hvort hægt sé að skipuleggja sérnám í endurhæfingarlækningum á Íslandi. Það er mjög mikilsvert, sérstaklega í ljósi þess að þau verkefni sem þar eru undir þarfnast þess að fersk og ný þekking myndist hér innan lands. Við erum best í stakk búin til að vita hvaða verkefni eru fyrir okkar samfélag og hvernig eigi að nýta þau. Þess vegna er þetta mjög mikilvægt. Sérverkefni Reykjalundar, sem hófst á síðasta ári, er annar mikilvægur vaxtarbroddur í þessu, þ.e. verkefni vegna sérþjónustu fyrir fólk með ákominn heilaskaða, sérstaklega þáttur göngu- og dagdeildarþjónustu. Tilfellið er að mjög oft er um langvarandi þjónustu að ræða og stuðning við fólk oft í nokkur ár, og það er dýrmætt að það verkefni sé komið af stað. En það er líka mikilvægt að verkefni eins og þetta, um nýsköpun í þjónustu, haldi áfram og það er mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að það fái áfram fjármagn og stuðning til að vaxa og dafna.