151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:14]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við mjög mikilvægt mál þar sem miklu skiptir að finna góðar lausnir, hvernig hægt er að þjónusta og aðstoða fólk með heilaskaða, heilabilun og slíkt. Mig langar að tala svolítið almennt um þetta. Þetta er dæmi um áskorun í heilbrigðiskerfinu sem þarf að vera til úrræði fyrir. Úrræðin eru fjölbreytt hvað þennan málaflokk varðar og þau eru klárlega ekki öll til í dag. Það eru til margar lausnir í dag og margir að vinna gott verk, en það er örugglega hægt að finna fleiri úrræði og gera betur. Þannig þarf skipulag okkar að vera sett upp, að fólk sé alltaf að leita að besta úrræðinu þar sem notandinn er þjónustaður sem best og á sem hagkvæmastan hátt og það þarf að vera gott aðgengi fyrir fólk að þessum úrræðum. Þessu náum við með því að virkja frumkvæði okkar góða heilbrigðisstarfsfólks og vísindamanna og gefa þeim von um að ef þeir búa til gott úrræði sem hentar vel fyrir fjölbreyttar áskoranir þá náum við að koma því til leiðar. Þá þurfum við ekki bara að reikna hvað það kostar heldur líka hverju það skilar og vita það. Þetta snýst um að til þess að takast á við svona áskoranir þurfum við að hafa kerfi þar sem er hvati til þess að úrræðin verði til og það sé aðgengi að úrræðunum, séu þau fundin upp. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Hér erum við að tala um að úrræðin séu til staðar að einhverju leyti. En kannski þarf betra aðgengi að þeim eða meiri stuðning við þá sem veita úrræðin til þess að geta veitt aðgengi.