151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:16]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan sýna vísindalegar rannsóknir ótvírætt fram á að núvitundarþjálfun hefur bein áhrif á formgerð og virkni heilans. Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós að núvitundariðkun hefur áhrif á tengsl við virkni í möndlu, fremri og aftari gyrðilsberki, eyjarblöðum og ýmsum framheila-, hvirfilblaða- og skynsvæðum heilans. Þegar orðið endurhæfing er sagt kemur vafalaust upp í hugum margra hugmynd um endurhæfingu vöðva. En þótt heilinn sé ekki vöðvi er samt sem áður hægt að þjálfa hann eins og um væri að ræða vöðva, styrkja hann eins og vöðva og endurhæfa á viðlíka hátt. Rannsóknir sýna að með núvitund er hægt að þjálfa heilann í kjölfar heilaskaða á áhrifaríkan hátt. Núvitund byggir á 2500 ára sögu þó að segja mætti að það sé aðeins nýlega sem farið er að taka hugmyndafræðina alvarlega innan læknisfræðinnar og hjúkrunarfræðinnar. Megininntak núvitundar er að fólk beini athyglinni að augnablikinu og dæmi ekki það sem það verður vart við. Núvitund kennir fólki að mæta mótlæti með skýrleika, stöðugleika, innsæi og æðruleysi og stuðlar að meðvitaðri athygli í núinu. Með núvitund er leitast við að rjúfa vítahring áreitis og vanhugsaðra viðbragða. Núvitund gagnast ekki eingöngu sjúklingum í endurhæfingu heldur einnig meðferðaraðilunum sjálfum. Sýnt hefur verið fram á að þeir meðferðaraðilar sem tileinka sér núvitund búa yfir meiri næmni, þolinmæði og skilningi. Þeir hafa sterkari nærveru, mynda betri tengsl og búa yfir auknu innsæi.

Virðulegi forseti. Núvitund er í raun almenn geðrækt. Núvitundaræfingar leiða til þess að þeir sem (Forseti hringir.) — nei, ég þarf að ljúka máli mínu. Tíminn er útrunninn. En núvitund sem endurhæfingarúrræði er ódýr og örugg aðferð (Forseti hringir.) sem virðist falla vel að þörfum flestra og á heima í því sem við ræðum nú.