151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[18:22]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi um breytingar á hegningarlögum og bann við afneitun helfararinnar. Þetta er efni sem á sannarlega erindi við samfélag okkar tíma þó að álitamálin séu e.t.v. einhver. Ég vil nefna það hér að hv. þingmaður mælti líka fyrir þingsályktunartillögu á haustdögum um minningardag um fórnarlömb helfararinnar sem er raunar þegar orðinn alþjóðlegur minningardagur, stofnsettur af Sameinuðu þjóðunum árið 2005, þ.e. 27. janúar. Þann dag árið 1945 voru Auschwitz-útrýmingarbúðirnar frelsaðar af sovéska hernum. Ég nýt þeirra forréttinda að vera bæði meðflutningsmaður á þessu frumvarpi og á þessari þingsályktunartillögu og mér þykir af því mikill sómi.

Þýðir þetta að hv. þingmaður og flutningsmenn séu stöðugt að horfa um öxl, séu fastir í fortíðinni, haldnir einhvers konar fortíðarhyggju, komist ekkert úr sporunum, séu ekki í takti við nútímann? Nei, þvert á móti, herra forseti. Þetta vitnar um ríka samfélagsvitund, þekkingu og skilning á því að sagan geymir ýmsar myrkar hliðar. Á öllum tímum virðast vera til sprotar öfgaafla sem finna sér einhvern jarðveg og ef við höldum ekki vöku okkar, bregðumst ekki við, þá kann að fara á lakari veginn; að við drögum ekki lærdóm af þessari átakanlegu reynslu fortíðar.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur kjarni málsins auðvitað fram. Verið er að leggja til að ný grein bætist við almenn hegningarlög frá 1940 um refsinæmi þess að afneita þjóðarmorði þýskra nasista. Þetta tímabil var átakanlegt. Heildarfjöldi þeirra sem létust vegna kerfisbundinna ofsókna á stríðsárunum telur 17 milljónir manna. Aðrir hópar fólks sættu einnig ofsóknum og voru myrtir af nasistum. Þar má nefna, eins og hv. flutningsmaður kom inn á, hinar ýmsu slavnesku þjóðir, gyðinga, Rómafólk, fatlaða, samkynhneigða og fjölda annarra hópa. Þetta tímabil, sem verður að teljast hluti af nútímasögu mannkyns, hvílir enn sem mara á þjóðum heims, eins og svart ský, og það verður þannig áfram.

Einhver kann að spyrja: Hvað kemur okkur þetta við? Er þetta ekki löngu liðin tíð og gerðist það ekki í útlöndum, fjarri okkar menningu, lífsskoðun og viðhorfum? Herra forseti. Þetta er fjarstæða. Þetta stendur okkur nefnilega nærri. Mörg okkar þekkja jafnvel persónulega til einstaklinga eða afkomenda þeirra sem hlutu þau örlög að þurfa að þola vistun í búðum nasista í Þýskalandi. Þetta hreyfir við okkur öllum. Yfir 3.200 Norðmenn voru t.d. sendir til Sachsenhausen-búðanna skammt fyrir norðan Berlín og 200 þeirra létu þar lífið. Margir þekkja líka sögu Leifs H. Müllers en hann upplifði líklega einhverja hryllilegustu fangelsisvist sem nokkur Íslendingur hefur þurft að þola, fyrst í Grini-fangelsinu í Noregi og síðar í þessum áðurnefndu og alræmdu Sachsenhausen-fangabúðum í Þýskalandi sem stundum voru nefndar vinnubúðir. Þar var hver dagur barátta upp á líf og dauða undir járnhæl nasista. Hungur, sjúkdómar, pyntingar og dauði voru daglegt brauð. Leifur skrifaði bók um þetta skelfilega tímabil í lífi sínu strax eftir heimkomuna til Íslands í stríðslok. Bókin heitir Í fangabúðum nazista og kom út í september 1945. Wiesenthal-stofnunin greinir frá því að þetta sé einstök bók og ein sú fyrsta sem rituð var í heiminum um helförina. Þetta var yfirþyrmandi fyrir þýska þjóð lengi fram eftir árum og það eru ekki margir áratugir síðan Þjóðverjar gátu farið að ræða þetta opinskátt og viðurkenna í rauninni, t.d. í skólakerfinu.

Að lögfesta með talsverðum þunga, eins og hér er lagt til, ætti að gera okkur auðveldara að horfa á sögu mannréttinda í víðara og skýrara samhengi. Það eigum við að gera. Þessi þungbæra saga ætti að stuðla að því að við stöldruðum kannski við og hugleiddum og veltum fyrir okkur þeim dýrmætu réttindum ýmissa minnihlutahópa sem orðið hafa að raunveruleika, þokast áfram, tiltölulega hratt þrátt fyrir allt, og hversu dýrmæt þessi réttindi eru. Við ættum að standa stöðugt vörð um þau, byggja skjaldborg um þessi réttindi því að þau eru ekki sjálfsögð. Þetta er, eins og dæmin sanna, fallvalt. Við þekkjum það og þurfum ekki að leita langt út fyrir mörk okkar til að verða vitni að því hvernig þessum réttindum er misþyrmt og þau svívirt í mörgum tilvikum. Það þarf ekki að fara langt og það er því miður veruleiki dagsins í dag í allt of mörgum heimshlutum.

Auk þess er helförin áminning um það hversu fljótt hættuleg hugmyndafræði getur haft hroðalegar afleiðingar ef ekki tekst að sporna við henni. Það þekkjum við sömuleiðis. Þessi áminning á sérstaklega erindi til okkar í dag þar sem kunnuglegri hatursfullri og pólitískri hugmyndafræði hefur vaxið fiskur um hrygg. Hún virðist því miður eiga sér nokkurn hljómgrunn og sorglegt að vita til þess að við Íslendingar förum ekki varhluta af skoðunum af þessu tagi. Við þekkjum líka úr íslensku samfélagi raddir sem jafnvel afneita þeim hroðalegu atburðum sem raunverulega áttu sér stað með helförinni en það er ekki bara verkefni stjórnmálamannanna heldur alls samfélagsins að hafna slíkri hugmyndafræði sem byggir á afneitun þeirra atburða sem raunverulega áttu sér stað. Þess vegna er þetta frumvarp tímabært í samfélagi okkar, að við séum stöðugt á varðbergi og gleymum ekki grimmdarverkum og höfum stöðugt hugfast hvað blint hatur getur gengið langt. Verum minnug þessa statt og stöðugt svo að hörmungarnar sem við höfum upplifað í sögunni geti aldrei endurtekið sig.