151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

Kristnisjóður o.fl.

470. mál
[19:07]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég legg fram frumvarp til laga um brottfall laga um Kristnisjóð o.fl., með síðari breytingum. Reyndar felur það í sér að fella brott ákvæði í þeim lögum, 5. gr., sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna er skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Nú er presti skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni og er þá sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans ef um lögboðið prestssetur er að ræða.“

Málið var fyrst lagt fram á 145. þingi, þá reyndar fyrst af hv. þáverandi þingflokki Bjartrar framtíðar, en einnig af þeim sem hér stendur, og var síðan endurflutt á 148., 149. og 150. þingi og eins og við vitum öll er þetta 151. þing og þá er það lagt fram aftur.

Frumvarpið sneri efnislega aldrei að neinu öðru en að fella brott þessa tímaskekkju, þ.e. 5. gr. í lögunum. En nýlega, nánar tiltekið á síðasta ári, var gerð tiltekt í lögunum og felldur brott II. kafli laganna, sem þýðir að búið er að reyta mestallt fiðrið af þessum lögum nema 5. gr. Hún er það eina sem stendur eftir í lögunum í dag. Og þar sem sú grein stendur ein eftir í lögunum er að þessu sinni lagt til að lögin í heild sinni falli brott og þar með stuðlað að því að við séum með aðeins minna í lagasafninu sem þvælist kannski mest fyrir, a.m.k. fólki eins og mér.

Tilefni þess að málið er lagt fram er að á sínum tíma var mjög hatrömm umræða á Íslandi vegna byggingar mosku, en moskur eru bænahús eða tilbeiðsluhús múslima og geta í sjálfu sér verið hvar sem er og í rauninni hvað sem er. Mig minnir að fyrsta moskan hafi verið undir berum himni þannig að það er ekki háð þessu ákvæði eða löggjöf í sjálfu sér hvort moskur séu á Íslandi. Þetta fór að sjálfsögðu fram hjá fólki sem þolir ekki múslima vegna þess að fólk veit almennt ekki neitt um íslam, sögu þess eða trúarsögu íslams. Það er svo sem önnur saga. En umræðan varð mjög hatrömm og varð mjög andvíg lýðræðisgildunum, myndi ég segja. Þá var t.d. ákall um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort byggja mætti þessa mosku eða ekki. Það var fráleit hugmynd, algerlega fráleit hugmynd að ætla að fara að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort eitthvert trúfélag gæti notið trúfrelsis og jafnræðis fyrir lögum eða ekki, algerlega galin pæling, virðulegi forseti.

Jafnræði fyrir lögum er hluti af lýðræðinu. Tjáningarfrelsi er hluti af lýðræðinu. Það eru ákveðnir hlutir sem ekki er hægt að ætla að afnema með lýðræðislegum leiðum. Það er mótsögn. Eitt af því sem kom þá til umræðu var spurningin um hvort 5. gr. laga um Kristnisjóð gerði það að verkum að Reykjavíkurborg væri skylt að úthluta því félagi sem vildi reisa moskuna þessari lóð, og þegar kemur að því að skipta veraldlegum eignum af hálfu ríkisins er alveg fullkomlega eðlilegt að allt slíkt sé umdeilt. En þarna snerist deilan um hvort undanskilja ætti múslima sérstaklega frá þessu þegar verst var. Sumir aðrir vildu meina að ákvæðið fjallaði einungis um þjóðkirkjuna, það væri jú sett á grundvelli þeirrar staðreyndar að við höfum enn þá þjóðkirkju hér árið 2021. Sú umræða endaði alltaf á sama punktinum: Ætlum við að hafa jafnræði fyrir lögum á Íslandi eða ekki? Fyrir mér er það engin spurning. Auðvitað eigum við hafa jafnræði fyrir lögum, virðulegi forseti.

Nú vill svo til að Reykjavíkurborg túlkaði þessa stöðu eða hafði brugðist við þessari stöðu með því að túlka ákvæðið þannig. Mér skilst að það hafi ekki í sjálfu sér verið lagatúlkun heldur sjálfstæð ákvörðun hjá Reykjavíkurborg, það skiptir svo sem ekki höfuðmáli. En aðalatriðið er að Reykjavíkurborg leit svo á að það væri í það minnsta við hæfi lögum samkvæmt að beita jafnræðisreglu til þess að úthluta ókeypis lóðum til allra trú- og lífsskoðunarfélaga sem um það myndu biðja. Ef svona ákvæði er til staðar yfir höfuð, virðulegi forseti, þykir mér þetta mjög sjálfsögð regla. Mér finnst út í hött að veita einu tilteknu trúfélagi sérstök forréttindi fram yfir öll hin, bara fyrir það að vera stærsta, stabílasta, sterkasta og yfirþyrmandi ríkasta trúfélagið. Það er náttúrlega galið að mínu mati.

Meira um þetta má sjá í greinargerð frumvarpsins, sem ég ætla ekki að lesa alla upp, en ég get þó ekki annað en kvartað aðeins undan mótsögn, sem þar er fjallað um, í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er á milli 62. gr. og 65. gr. En 62. gr. er þjóðkirkjuákvæðið. Þar er heimilt, og ríkisvaldinu reyndar skylt að styðja sérstaklega við hina evangelísku lútersku kirkju, nefnilega þjóðkirkjuna. 65. gr. stjórnarskrárinnar fjallar hins vegar um jafnræði fyrir lögum án tillits til m.a. trúarskoðana. Þetta þykir mér ótæk staða, virðulegi forseti, og mér finnst að við eigum að breyta þessu. Það sem við getum alla vega breytt, jafnvel þótt ríkisvaldið neyðist til að styðja þjóðkirkjuna með einhverjum hætti svo lengi sem 62. gr. er við lýði í stjórnarskránni, er að við getum í það minnsta fjarlægt úr lögum það sem hlýtur að teljast barn síns tíma eins og þetta ákvæði. Það má svo sem alveg telja að einhvern tíma hafi þetta ákvæði verið skynsamlegt með hliðsjón af einsleitri trúarinnrætingu landsmanna. Kannski. Ég er reyndar ekki þeirrar skoðunar en ég myndi svo sem skilja það sjónarmið. Óháð því finnst mér algjörlega borðleggjandi að þetta er ekki við hæfi í lögum lengur, sérstaklega ekki þegar löggjöf eins og þessi er beinlínis orðin neisti fyrir orðræðu gegn trúarminnihlutahóp sem byggist á því að ríkið sé að gefa þeim trúarhóp eitthvað sem var sett í lög fyrir þjóðkirkjuna. Það er mjög óheppilegt svo ekki verði meira sagt. Ég tel ekki að það sé tilgangur laga eða bara réttlætanlegt að lög búi til einhvern trúarlegan núning.

Virðulegi forseti. Það vill þannig til að sagan sýnir þetta mjög skýrt þegar verulega alvarleg mannréttindabrot hafa verið framin í gegnum tíðina. Þegar samfélög ganga af göflunum og fara að svipta minnihlutahópa einhverjum réttindum er það bara mjög algengt að trúarsannfæring leiki þar lykilhlutverk. Það er ekki algilt en það er mjög algengt. Við búum við þá hættu í dag. Við búum við orðræðu í garð múslima sem er ekki í lagi og stundum beinlínis hatursáróður, og það segi ég ekki sem aðdáandi trúarbragðanna sjálfra efnislega. Mér finnst ekki endilega hafa verið fjallað efnislega um tilteknar trúarkenningar hér í pontu, en ég læt mér duga að segja að ég er ekki aðdáandi þeirra trúarbragða og gæti rökrætt fram í nóttina við múslima um guðfræðilegar afleiðingar af því sem stendur m.a. í Kóraninum. En það breytir því ekki að auðvitað eiga múslimar, eins og aðrir trúarminnihlutahópar á Íslandi, að njóta nákvæmlega sömu réttinda og aðrir og að sjálfsögðu að bera sömu skyldur. Það þykir mér frekar augljóst. Ég verð að segja að mér finnst skrýtið hvað margir á Íslandi eru fljótir að heimta það að trúarminnihlutahópar beri sömu skyldur og aðrir, en þeir eru einhvern veginn ekki eins fljótir að heimta sama frelsi og sama jafnrétti fyrir þá sömu trúarlegu minnihlutahópa.

Virðulegi forseti. Hið rétta er auðvitað að eitt af meginhlutverkum ríkisvaldsins yfir höfuð er að tryggja jafnræði fyrir lögum og vernda minnihlutahópa gegn ágangi meiri hlutans. Það skrýtna hér er að þjóðkirkjan er ekki með mjög sérstök forréttindi til að verja hana heldur vegna þess að hún er í meiri hluta, yfirþyrmandi meiri hluta reyndar. Það er ekki málefnaleg ástæða fyrir því að hafa þjóðkirkju.

Án þess að fara dýpra eða lengra út fyrir efni frumvarpsins ætla ég að vísa einfaldlega til greinargerðarinnar og fyrri ræðna sem hafa verið fluttar um þetta ágæta mál. Ég vona að málið fari í gegn í þetta sinn, þó að maður læri að vona varlega hér á Alþingi, og óska þess að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.