151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er mjög alvarleg staða í rekstri hjúkrunarheimila í landinu. Það er mikil óvissa í málaflokknum og um einstaka hjúkrunarheimili sem sveitarfélög hafa rekið og skilað af sér. Í stað þess að koma með skýra tilkynningu um það hvernig bregðast eigi við vandanum sendi hæstv. heilbrigðisráðherra út tilkynningu um að hv. formaður velferðarnefndar hafi brotið trúnað þegar hún sagði frá vandanum og fjallaði um það við fréttamenn. Stjórnarliðar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd reyna einnig að breiða yfir símtöl hæstv. dómsmálaráðherra á aðfangadag til lögreglustjóra, sem snerust um að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði verið í samkvæmi þar sem sóttvarnareglur voru brotnar. Stjórnarliðar hafa í frammi þöggunartilburði í stað þess að horfast í augu við vanda og mistök. Fingri er beint að hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar til að reyna að þagga niðri þeim. Þetta er óásættanlegt, herra forseti.