151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er verulegt áhyggjuefni á tímum þar sem kórónuveirufaraldurinn dregur úr getu þingsins til að halda uppi hefðbundnum þingstörfum. Í þokkabót búum við nú við tilraunaverkefni vegna styttingar vinnutíma sem fækkar enn þingfundum og þá kemur framkvæmdarvaldið með enn einn lásinn, eða tilraun til þess. Ég tek undir að þetta er tilraun til þöggunar. Það er útúrsnúningur á þingskapalögum þegar ráðuneyti heilbrigðismála lætur fara frá sér að trúnaður skuli ríkja um það sem fram fer á þingnefndarfundum. Það er rangt, herra forseti. Þingskapalögin taka allan vafa af um að verið er að tala um beinar tilvitnanir. Ef hér á að reyna af hálfu ríkisstjórnarinnar að hefta stjórnarandstöðuna í störfum sínum þannig að hún geti ekki greint frá vinnu nefnda þá getum við pakkað saman.