151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég furða mig svolítið á þessum trúnaði í nefndum. Ég furða mig sérstaklega á því hvernig getur ríkt trúnaður um það sem varðar almannafé, hvort sem það er sveitarfélaga eða ríkisins. Ég myndi telja að það væri skylda að segja frá því ef ég vissi það utan nefndar, en ég má ekki segja það ef ég fæ þær sömu fréttir innan nefndar. Hvar liggja mörkin? Ber okkur ekki skylda til að setja spurningarmerki þegar verið er að tala um opinbert fé? Hvort sem það er út af mistökum eða einhverju öðru þá hljótum við að þurfa að gefa upplýsingar um það. Það getur ekki gilt trúnaður, ég sé ekki á nokkurn hátt hvernig á að geta gilt trúnaður um það vegna þess að það er okkar skylda að fylgjast með því hvernig farið er með opinbert fé.