151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í áréttingu frá forseta til formanna og nefndarmanna í fastanefndum Alþingis er einmitt sagt að gestir eigi að geta tjáð sig á opinn og óþvingaðan hátt og það sé ekki hlutverk nefndarmanna í fastanefndum að endursegja, hvað þá túlka, það sem gestir eða aðrir nefndarmenn segja. En hins vegar verða nefndarmenn að geta gert grein fyrir afstöðu sinni og viðhorfum. Núna hafa stjórnarþingmenn verið að garga trúnaðarbrestur fram og til baka. Við þurfum að fara varlega með það orð. Það er til skilgreining á því hvað trúnaður þýðir í þingnefndum. Maður er beðinn um það fyrir fram með sérstökum formerkjum sem hefur ekki verið gert í neinu af þeim tilvikum hér þar sem gargað er trúnaðarbrestur. Við þurfum að geta rækt eftirlitsskyldu okkar. Og ef gestir eiga að geta verið hreinskilnir og opinskáir, eins og æskilegt er, en nefndarmenn geta síðan ekki notað það á neinn hátt í störfum sínum, hvert erum við þá komin? Ef það er bara trúnaðarbrestur ef þingmenn gera það erum við komin í mjög djúpa holu (Forseti hringir.) sem erfitt er að réttlæta lýðræðislega séð.