151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er lykilatriði að þetta sé skýrt. Það eru bara þrjú fundarform sem við höfum á nefndarfundum þar sem við fáum upplýsingar til að geta tekið afstöðu til mála sem við verðum að geta upplýst almenning um og almennt bara upplýst almenning um það hvað fer fram. Þetta snýst allt um almenning. Almenningur á rétt á því að fá upplýsingarnar og vera upplýstur um að við séum að starfa í þeirra þágu. Það eru annars vegar lokaðir fundir, það eru hins vegar gestafundir, eins og komið hefur fram, þegar gestir koma fyrir nefndina. Að jafnaði skulu þeir vera með því formi, það sem er kallað gestafundur, að fjölmiðlamenn mega koma og það má vitna til orða. Trúnaðurinn er síðan annað. Það er munurinn á þessu. Það eru annars vegar lokaðir fundir, má ekki vitna til orða. Það þýðir ekki að þú megir ekki túlka þó að ég hafi ekki gert það sjálfur, ég fór sérstaklega varlega og var innan þess ramma sem er ný túlkun forseta á þessum málum. Þessi nýja túlkun forseta, að það megi ekki einu sinni túlka það sem kom fram á fundunum ef þeir eru lokaðir — þá getum við ekki sinnt okkar starfi nema fá meiri hluta fyrir því að allir fundir, sem væri líklega mjög farsæl staða, séu að jafnaði þannig (Forseti hringir.) að það megi vitna til orða nema það sé sérstaklega beðið um eitthvað annað. (Forseti hringir.) Ef það er ekki leyfilegt, og það er meiri hluti nefndar sem þarf að samþykkja þetta, (Forseti hringir.) er það það eina sem minni hlutinn á eftir, þ.e. að allir fundir séu opnir fjölmiðlum, að öllum fundum sé sjónvarpað frá þinginu. Það er það eina í stöðunni ef þetta er ekki leyst á farsælli hátt fyrir þing og þjóð.