151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

tilraunir til þöggunar.

[13:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Bara aðeins til áréttingar, af því að hér vitnaði ágætur hv. þingmaður til orða minna frá 28. janúar sl., þá féllu þau ummæli akkúrat í umræðunni, ég fletti því upp, þegar ég var að leiðrétta túlkun annars þingmanns, hv. þm. Birgis Þórarinssonar, [Hlátur í þingsal.] á einhverju sem fram kom af hálfu þessara ágætu Samtaka atvinnulífsins. Hv. þm. Birgir Þórarinsson kom hér í ræðustól og var að vitna, að mínu mati, með fullkomlega röngum hætti til Samtaka atvinnulífsins (Gripið fram í.) og það neyddi mig til að koma upp og leiðrétta það. Það er akkúrat það sem gerist, hv. þingmaður. Það er akkúrat það sem gerist þegar sumir þingmenn koma fram og telja sig þess umkomna að túlka eitthvað sem sagt hefur verið. Þá neyðir það aðra annaðhvort til þess að láta mistúlkunina, rangfærsluna, standa eða koma með sína túlkun. Þess vegna velti ég því stundum fyrir mér ef þingmenn (Forseti hringir.) geta ekki virt eðlilegan trúnað — þá er ég ekki að tala um hátíðlegan trúnað í merkingu þingskapa heldur bara eðlilegan trúnað um það sem menn eru að segja á (Forseti hringir.) nefndarfundum — þá er kannski bara best að hafa alla nefndarfundi opna (Gripið fram í.) eins og hv. þingmenn Pírata hafa lengi talað um. (Forseti hringir.) En þá verða menn líka að athuga að það er ekki víst að menn fái sömu upplýsingar á fundunum og ella kæmu fram.