151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

tilraunir til þöggunar.

[13:44]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég bara get ekki lýst ánægju minni og gleði yfir þessum orðum hv. þingmanns um að opna skuli nefndarfundi að jafnaði og breyta þessu leyndarhyggjufyrirkomulagi á nefndarfundum yfir í það sem ætti að vera eðlilegt, að loka fundum ef það eru viðkvæm málefni til umræðu, af því að ekki eru öll málefni sem eru til umræðu viðkvæm. Það ætti kannski að hafa smáendurmenntun í því hér á þingi hvað telst vera viðkvæmt málefni og hvað ekki. Þar að auki finnst mér verulega skrýtið hversu viðkvæmir stjórnarliðar eru fyrir orðinu þöggun, af því að ef þetta er ekki þöggun þá eru þetta a.m.k. alvarlegar tilraunir til að grafa undan stjórnarandstöðunni. Og hvort er betra úr valdasætinu, að setja sig á háan hest og horfa niður á stjórnarandstöðuna og þagga niður í henni eða gera lítið úr henni. Hvort er betra? Getur einhver útskýrt það fyrir mér? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)