151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

tilraunir til þöggunar.

[13:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langaði bara að hvetja forseta til að fara yfir þetta nákvæmlega og ekki bara þessa 19. gr. varðandi það að ekki megi vitna til orða á lokuðum nefndarfundum. Þó má gera það þegar gestafundir eru, en það þarf meiri hluta nefndar til að ná því fram. Það er kannski eitthvað sem við gerum í framhaldinu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna ásakana um að formaður hafi brotið trúnað með því að segja í kvöldfréttum að komið hafi fram nýjar upplýsingar í nefndinni og við þyrftum að athuga málin nánar. Að sjálfsögðu er það meira að segja túlkun forseta. Ég talaði náttúrlega strax við forsetann. Hann áréttaði síðan við nefndirnar, nefndarmenn og nefndarformenn, hvernig þessu skyldi háttað. Túlkunin er samt mjög þröng.

Ég biðla til forseta að fara vel yfir hvað þetta þýðir í raun og veru í framkvæmd í þinginu varðandi hvernig við getum starfað. Ef fundirnir eru að jafnaði lokaðir og ekki má vitna til orða sem fallið hafa, og samkvæmt túlkun forseta þýðir það að ekki má einu sinni túlka orð þeirra sem koma á nefndarfundi, þá fúnkera nefndirnar ekki í því formi. Þá er kannski bara best að við færum okkur yfir í það (Forseti hringir.) að þegar gestir koma á fundi séu fundirnir að jafnaði opnir eins og er heimild fyrir. Meiri hluti nefnda gerir það. Við förum kannski að óska eftir því að það sé standardinn. Við getum óskað eftir því (Forseti hringir.) að meiri hluti nefndar samþykki það. Ef það gengur ekki verður verðum við alltaf að þvinga fram (Forseti hringir.) opna nefndarfundi með þremur nefndarmönnum. Það væri gott ef forseti færi yfir þetta og reyndi að finna sáttalausn í þessu (Forseti hringir.) þannig að starfið í þinginu geti verið vel upplýst og faglegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)