151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

málaferli menntamálaráðherra gegn einstaklingi.

[14:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra vegna fordæmalausra málaferla ríkisvaldsins gegn einstaklingi sem sótti rétt sinn gegn aðgerðum Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og hafði sigur, ekki einu sinni heldur tvisvar. En málarekstur ríkisins heldur áfram. Ríkisstjórnin hefur þétt raðirnar í þögn sinni um þetta mál á hátt sem breska konungsfjölskyldan gæti verið stolt af, en ég óska hér eftir viðbrögðum leiðtoga ríkisstjórnarinnar.

Farið hefur verið ítarlega yfir þetta mál í fjölmiðlum. Í stuttu máli eru málavextir þannig að héraðsdómur hafnaði mjög afdráttarlaust öllum málsástæðum menntamálaráðherra í máli sem hún höfðaði til að fá ógiltan úrskurð kærunefndar jafnréttismála vegna skipunar hennar á ráðuneytisstjóra. Þrátt fyrir það ákveður ríkisvaldið að áfrýja málinu til milliréttar nokkrum klukkutímum eftir að dómur féll. Ég virði það að hæstv. forsætisráðherra ætlar ekki að hafa afskipti af málinu á nokkurn hátt, þó að ég sé ekki sammála þeirri ákvörðun hennar, og ég virði það líka, þótt ég sé aftur ósammála, að forsætisráðherra lætur sér í léttu rúmi liggja að fá fréttir úr fjölmiðlum af þessari fordæmalausu gagnsókn ríkisins. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að ganga út frá því að hæstv. forsætisráðherra hafi myndað sér skoðun á málinu og ég tel þá skoðun eiga erindi við almenning. Ég óska eftir því að forsætisráðherra deili með okkur skoðun sinni á því að ríkisstjórn undir hennar forystu stígi þetta skref. Ég veit að þetta er ekki jafnréttispólitík hæstv. ráðherra. En er ráðherra stolt af því að þetta sé jafnréttispólitík hennar ríkisstjórnar?