151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

málaferli menntamálaráðherra gegn einstaklingi.

[14:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina þótt ég sé ekki alveg sammála skilgreiningu hennar á hinni miklu þögn í anda bresku konungsfjölskyldunnar þar sem ég hef áður tjáð mig um þetta mál í þingsal og við fjölmiðla, þó að ekki hafi verið þingfundur frá því að þessi ákvörðun var tekin. Mér finnst því, hv. þingmaður, þessi þögn vera ansi lítil þögn, svo ég segi það nú.

Hv. þingmaður ræðir þessi málaferli sem sameiginlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ég verð þá að segja við hv. þingmann að það eru auðvitað fjöldamörg mál sem einstakir ráðherrar eiga í sem heyra undir verksvið þeirra ráðuneyta. Og eins og fram hefur komið, bæði í þingsal af minni hálfu og í fjölmiðlum, þá heyrir þetta mál algerlega undir forræði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það er hennar ákvörðun, bæði að fara í þetta mál á sínum tíma í kjölfar úrskurðar kærunefndarinnar sem kveðinn var upp í maí í fyrra, og sömuleiðis hennar ákvörðun að áfrýja því máli.

Hv. þingmaður spyr um mína skoðun og afstöðu í þessum málum almennt. Þetta mál er undir forræði hæstv. ráðherra. Hún þekkir málavöxtu, hún hefur leitað sér ráðgjafar. Þar hef ég ekki verið aðili máls, en almennt vil ég segja að ég tel það mjög mikilvægt að fólk hiki ekki við að leita réttar síns í slíkum málum. Þess vegna lagði ég fram breytingu á lögum um stjórnsýslu jafnréttismála, sem hv. þingmaður þekkir því að hún samþykkti þá breytingu ásamt öðrum hv. þingmönnum, sem miðar að því að fari svo að ráðherra leiti ógildingar á úrskurði kærunefndar jafnréttismála er það ekki eingöngu gagnvart einstaklingi lengur heldur er kærunefnd jafnréttismála núna aðili máls. Þetta er breyting sem var samþykkt á Alþingi og miðar að því að þá sé það kærunefndin sem standi fyrir máli sínu (Forseti hringir.) en ekki eingöngu einstaklingurinn sem sé kallaður að málum.