151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

sóttvarnir.

[14:32]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín laut einmitt að því hvað við ætlum að miða aðgerðir okkar við. Hæstv. forsætisráðherra segir að aðgerðir hér muni miðast við árangur í öðrum löndum. En er það ekki svo að sóttvarnaaðgerðir og annað, það að halda landinu í sóttkví, hlýtur að miðast við hvernig gengur hér innan lands? Ég nefni það þess vegna að þegar búið er að bólusetja 70 ára og eldri er hætta á dauðsföllum og alvarlegum veikindum af völdum þessarar veiru orðin hverfandi, ég tala nú ekki um ef menn ná að fara niður í 60 ára. Hún er orðin hverfandi. Þess vegna er spurning mín þessi: Hvað eru menn að gera og hvernig sjá menn fyrir sér að þeim áfanga verði náð? Og hvað eru menn að gera til að hraða þeim áfanga, m.a. með því að útvega meira bóluefni? Það berast reyndar gleðilegar fréttir af Johnson & Johnson-bóluefninu í dag en það liggur fyrir að AstraZeneca-bóluefnið virðist liggja á lausu víðast hvar í Evrópu.