Óyfirlesin bráðabirgðaútgáfa frá talgreini.

151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

sóttvarnir.

[14:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður byrjaði á því að ræða um litakóðunarkerfið og ég var bara að fara yfir hvað það þýðir og hverju það myndi t.d. breyta ef það væri í gildi núna. Það myndi varða eitt land. Verðum við ekki að miða að einhverju leyti við stöðuna í öðrum löndum þegar við ákveðum aðgerðir okkar? Að sjálfsögðu verðum við að gera það. Og við sjáum hversu mikil áhrif eitt smit getur haft. Við hv. þingmaður getum verið ósammála um það en það breytir því ekki að við lærum af þeirri reynslu sem við höfum þegar öðlast í gegnum þennan faraldur og það getur haft alveg ótrúleg áhrif í raun og veru, eitt smit, einn smitaður einstaklingur, þegar um er að ræða jafn bráðsmitandi veiru og hér um ræðir.

Ég vil síðan segja varðandi bólusetningar að það komu jákvæðar fréttir af Janssen J&J í dag og þar hefur Ísland tryggt sér marga skammta. Við eigum von á því að afhending þess hefjist á öðrum ársfjórðungi og þau voru að fá markaðsleyfi núna, sem eru mjög góð tíðindi. Á sama tíma berast ekki eins góð tíðindi af AstraZeneca þar sem er verið að boða ákveðið hlé í notkun þess vegna aukaverkana sem eru til rannsóknar.

Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þingmanni — ég veit nú ekki með þessa klukku hérna, herra forseti, en ég get staðið hér og talað í allan dag ef þú vilt, mér finnst það bara gaman — en við höfum birt líkan yfir það hvað gerist … (Gripið fram í.) Hvað, finnst ykkur ekki gaman að hafa mig hérna? Þegar bólusetningu 70 ára og eldri er lokið og það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að þar verða ákveðin kaflaskil, þá dregur mjög úr líkum á dauðsföllum og alvarlegum innlögnum og að sjálfsögðu munu stjórnvöld taka mið af því við áætlanir sínar og ákvarðanir um sóttvarnir. — Ég er núna búin að tala í þrjár mínútur og þakka kærlega fyrir það, herra forseti. Á þetta ekki bara alltaf að vera svona?