151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi er verið að færa verkefni frá Neytendastofu yfir á aðrar stofnanir. Í greinargerð með frumvarpinu er ýjað að því að síðan eigi að leggja Neytendastofu niður, enda verður Neytendastofa ansi lítil stofnun eftir þessar breytingar. Með leyfi forseta stendur í greinargerðinni með frumvarpinu:

„Ekki er gert ráð fyrir að Neytendastofa verði lögð niður heldur að Neytendastofa sinni enn um sinn verkefnum á sviði neytendaréttar.“

Síðan er talað um að endurskoða eigi á þessu ári ýmis verkefni þessu tengd.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að það sé ekki mikil tillitssemi gagnvart starfsfólki Neytendastofu að boða í greinargerð með frumvarpi að leggja eigi störfin þeirra niður. Er hv. þingmaður ekki sammála því að þegar færa á stór verkefni á milli stofnana eða sameina stofnanir þá skipti mjög miklu máli þessi mannlegi þáttur og hvernig unnið er með starfsmönnunum að breytingunum? Hvað vill hv. þingmaður segja um það að hæstv. ráðherra neytendamála sendi starfsmönnum Neytendastofu slík skilaboð um störf þeirra og framtíð í gegnum greinargerð með frumvarpinu?