151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

aðgerðir gegn markaðssvikum.

584. mál
[18:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um aðgerðir gegn markaðssvikum. Frumvarpið er á þingskjali 992, mál nr. 584. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014, um markaðssvik, verði veitt lagagildi á Íslandi. Reglugerðin er í daglegu tali kölluð MAR, sem er stytting á ensku heiti hennar, með leyfi forseta, Market Abuse Regulation.

Hluti af viðbrögðum G-20 ríkjanna við fjármálaáfallinu 2008 fólst í að efla eftirlit og samræma viðurlög við brotum á verðbréfamarkaði. Meðal annars með tilliti til þessa var samþykkt hjá Evrópusambandinu að setja nýjar reglur um aðgerðir gegn markaðssvikum í formi annars vegar MAR og hins vegar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2014/57/ESB, um refsingar vegna markaðssvika. Sú síðarnefnda er betur þekkt sem markaðssvikatilskipunin eða MAD2-tilskipunin. Sú tilskipun fjallar um lágmarksrefsingar vegna markaðssvika en þar sem refsingar falla ekki innan gildissviðs EES-samningsins var gerðin ekki tekin upp í samninginn. Óháð því er talið mikilvægt að sambærileg viðurlög séu við markaðssvikum hér á landi og innan Evrópusambandsins og var því við smíði þessa frumvarps höfð hliðsjón af ákvæðum markaðssvikatilskipunarinnar.

Í samræmi við nýlega þróun í lagasetningu á fjármálamarkaði hér á landi er lagt til að sett verði sérlög um aðgerðir gegn markaðssvikum. Samhliða verði gildandi ákvæði um sama efni í lögum um verðbréfaviðskipti felld brott, en þau ákvæði byggjast á eldri Evrópureglum á sama sviði. Í kjölfar innleiðingar MAR-reglugerðarinnar í íslenskan rétt munu sömu reglur gilda um aðgerðir gegn markaðssvikum hér á landi og annars staðar í Evrópu. Með því er stuðlað að heildstæðu regluverki á evrópskum verðbréfamarkaði og samræmi í viðurlögum við brotum. Þannig komum við m.a. í veg fyrir það sem kallað er eftirlitshögnun, þá tilraun markaðsaðila til að koma sér þar fyrir þar sem refsingar eru minnstar ef svo mætti segja, eða njóta góðs af því að refsingar séu með ólíkum hætti í ólíkum markaðsríkjum. Í slíkri högnun felst að markaðsaðilar fara í kringum reglur um markaðssvik með því að stunda viðskipti sín fremur í einu aðildarríki en öðru til að falla undir vægari kröfur eða vægari viðurlög vegna brota.

Virðulegur forseti. Meginumfjöllunarefni MAR-reglugerðarinnar er aðgerðir gegn markaðssvikum og opinber birting innherjaupplýsinga af hálfu útgefenda. Markaðssvik er hugtak sem nær yfir innherjasvik, ólögmæta miðlun innherjaupplýsinga og markaðsmisnotkun. Slík háttsemi kemur í veg fyrir fullt og eðlilegt gagnsæi á markaði, sem er meginforsenda jafnra samkeppnisskilyrða og viðskipta fjárfesta á samþættum fjármálamörkuðum. Opinber birting innherjaupplýsinga af hálfu útgefenda er nauðsynleg til að koma í veg fyrir innherjasvik og til að tryggja að fjárfestar séu vel upplýstir og með því er dregið úr líkum á blekkingum.

MAR-reglugerðin gildir um alla fjármálagerninga sem viðskipti eru með á skipulegum markaði, markaðstorgi fjármálagerninga eða skipulögðu markaðstorgi. Hún gildir um hvers konar háttsemi og aðgerðir sem gætu haft áhrif á slíka fjármálagerninga án tillits til þess hvort háttsemin eða aðgerðirnar eiga sér stað á viðskiptavettvangi eða ekki. Hið sama á við um fjármálagerninga sem óskað hefur verið eftir að teknir séu til viðskipta á skipulegum markaði eða markaðstorgi fjármálagerninga. Samkvæmt MAR-reglugerðinni eru innherjasvik, ólögmæt miðlun innherjaupplýsinga og markaðsmisnotkun óheimil og kveður reglugerðin á um lágmarksstjórnsýsluviðurlög, sé farið gegn ákvæðum hennar hvað það varðar. Í frumvarpinu eru því stjórnsýsluviðurlög nánar útfærð. Í frumvarpinu er einnig fjallað um refsingar við brotum gegn reglugerðinni og er lagt til að refsingar við markaðssvikum hér á landi haldist óbreyttar en þær eru ýmist í samræmi við lágmarkskröfur MAR eða þyngri.

Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér frá gildandi rétti eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er gildissviðið rýmra og falla nú m.a. fjármálagerningar í viðskiptum á markaðstorgi fjármálagerninga eða skipulögðu markaðstorgi undir gildissvið reglnanna. Sama á við um viðskipti á tilteknum mörkuðum með losunarheimildir. Hið nýja gildissvið tekur mið af þeirri þróun sem hefur orðið á fjármálamarkaði.

Í öðru lagi er lágmarkstími fyrir birtingu innherjaupplýsinga á vef útgefanda lengdur úr einu ári í fimm ár.

Í þriðja lagi er upplýsingaskyldu vegna frestunar á birtingu breytt með þeim hætti að upplýsa ber Fjármálaeftirlitið um að birtingu innherjaupplýsinga hafi verið frestað þegar innherjaupplýsingar hafa verið birtar. Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um nýtingu á heimild til frestunar jafnóðum og slík heimild er nýtt.

Í fjórða lagi er kveðið á um nýjar heimildir fyrir fjármálafyrirtæki til að fresta birtingu upplýsinga sé það nauðsynlegt til að vernda efnahagsstöðugleika.

Í fimmta lagi er fjallað sérstaklega um markaðsþreifingar sem fela í sér miðlun upplýsinga um fyrirhuguð viðskipti og skilmála þeirra, eins og t.d. umfang og kjör, sem hafa ekki verið gerðar opinberar í þeim tilgangi að kanna áhuga hugsanlegra fjárfesta til viðskiptanna.

Í sjötta lagi breytist flokkun innherja og hið sama á við um innherjalista. MAR gerir t.d. ráð fyrir að innherjalistar geti verið tvískiptir, að þeir skiptist í varanlega innherja og atviksbundna innherja. Auk þess þurfa útgefendur og aðilar sem starfa fyrir þeirra hönd eða á þeirra vegum, svo sem ráðgjafar, að viðhalda innherjalistum.

Í sjöunda lagi falla brott ákvæði um milligöngu fjármálafyrirtækis.

Í áttunda lagi falla brott ákvæði um rannsóknarskyldu og tilkynningarskyldu fruminnherja.

Í níunda lagi eru útgefendur á vaxtamarkaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki undanþegnir því að gera innherjalista, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í tíunda lagi eru Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands veittar auknar valdheimildir til rannsókna og að lokum er komið á samræmdum viðmiðum um lágmarksstjórnsýsluviðurlög við brotum.

Virðulegur forseti. Frumvarpið hefur áhrif á flest fyrirtæki sem starfa á verðbréfamarkaði. Með því eru lagðar til skýrari reglur sem létta að vissu leyti reglubyrði þótt frumvarpið hafi jafnframt að geyma nýjar eftirlitskvaðir. Ekki er gert ráð fyrir að lagabreytingin hafi teljandi áhrif á eftirlitshlutverk Seðlabanka Íslands sem hefur í dag eftirlit með markaðssvikum hér á landi og ekki er gert ráð fyrir neinum áhrifum á ríkissjóð. Ekki er gert ráð fyrir að markaðsaðilar eða Seðlabankinn þurfi langan tíma til aðlögunar. Æskilegt er að frumvarpið taki gildi sem fyrst til að tryggja samræmi milli reglna hér á landi og annars staðar í Evrópu um markaðssvik.

Þá er að lokum rétt að geta þess að í frumvarpinu er miðað við að frumvarp til nýrra laga um markaði fyrir fjármálagerninga öðlist gildi á sama tíma. Gert er ráð fyrir framlagningu síðarnefnda frumvarpsins á Alþingi í þessum mánuði. Því er m.a. ætlað að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014, um sama efni. Það er hin svokallaða MiFID2-tilskipun og MiFIR-reglugerðin. Þessar þrjár Evrópugerðir, MAR, MiFID2 og MiFIR, eru tengdar, t.d. hvað varðar gildissvið og hugtakanotkun og þess vegna er æskilegt, eins og hér hefur komið fram, að þetta frumvarp og frumvarp til laga um markaði fyrir fjármálagerninga öðlist gildi á sama tíma. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir gildistöku í vor.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.