151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[16:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo að það sé áréttað er ég líka hlynntur viðskiptafrelsi og því að einkaaðilar geti selt áfengi. Til lengri tíma litið, með fyrirvara um þá forgangsröðun sem ég lýsti í seinni hluta ræðu minnar, tel ég að einn daginn í framtíðinni eigi að vera heimilt að selja þau vímuefni sem eru ólögleg í dag. Ég er ekki viss um að skynsamlegt sé að opna heróínbúðir á morgun, ég hygg að huga þurfi að ansi mörgu áður en við komumst á þann stað, en fyrsta skrefið er að hætta að refsa neytendum. Það er fyrsta skrefið. Það skiptir máli hvernig hlutirnir eru gerðir og í hvaða röð. Mér finnst svo áhugavert að heyra málflutning hv. þingmanns vegna þess að hann þarf ekki að predika yfir neinum um að viðskiptafrelsið skipti máli. Það hefur næstum því ekkert annað frelsi komist að í pólitískri umræðu síðustu áratugina hjá Sjálfstæðisflokknum sem hamrar sífellt á frelsi. Það er ágætt. Ég elska frelsið. Ég vil frelsið, ég heimta það og ætti að fá það. Og aftur: Stöðvi heimurinn mig ef hann getur. En það er munur á því að hafa enga athygli á einhverju, hafa alla athygli á því eða hafa einhverja athygli á því. Ég er ekkert á móti viðskiptafrelsinu. Mér finnst bara ekki að það eigi alltaf að vera það eina sem er í forgangi. Mér finnst einstaklingsfrelsið eiga að vera í fyrsta forgangi og vissulega er frelsi til athafna og frelsi til viðskipta hluti af því. Viðskipti eru athafnir, ég átta mig á því, virðulegi forseti. En þegar kemur að Sjálfstæðisflokknum er eins og frelsi einstaklingsins sé alltaf aukaatriði. Það er alltaf aukaatriði og kemst aldrei alveg í forgrunninn. Þess vegna er heimabruggun enn þá bönnuð og þess vegna erum við enn þá að refsa vímuefnaneytendum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn léti efndir fylgja orðum værum við frjálsari í dag en við erum. En þökk sé kjósendum höfum við aðra flokka hér til að sjá um það.