151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

skimun á landamærum.

[13:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt, sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að mér barst minnisblað frá sóttvarnalækni nú um helgina. Þar var fjallað um annars vegar aðgerðir innan lands, sem er sérstök reglugerð, og hins vegar um aðgerðir á landamærum, sem er önnur reglugerð. Að því er varðar aðgerðir innan lands þurftum við að geta sagt fyrir um hvað það væri sem tæki við núna 17. mars af því að núgildandi reglugerð gildir þangað til. Þær breytingar eru óverulegar og við erum í raun og veru að framlengja stöðuna eins og hún er núna með örlitlum breytingum fram til 9. apríl.

Hvað varðar reglugerðina sem gildir um landamæri þá er hún í sjálfu sér í gildi til 1. maí en hins vegar var kynnt fyrir ríkisstjórn reglugerð sem byggir á tillögu sóttvarnalæknis um bólusetningarvottorð og vottorð um fyrri Covid-sýkingu utan EES-svæðisins, þ.e. að þessi vottorð verði tekin gild líka eins og vottorð innan EES-svæðisins þannig að sömu kröfur verði gerðar til allra vottorða. Af sama tilefni tilkynnti dómsmálaráðherra um breytingu á reglugerð sem undir hana heyrir.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis er líka fjallað um fleiri atriði sem hv. þingmaður nefnir hér sem eru annars vegar að skima börn við komuna til landsins og einnig að nota sóttvarnahús meira en við gerum núna. Þessar tillögur eru til skoðunar í ráðuneytinu og ég geri fastlega ráð fyrir því að breytingar í samræmi við þessar tillögur sóttvarnalæknis verði látnar taka gildi á allra næstu dögum.