151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kvartanir þeirra sem standa utan þjóðkirkjunnar hafa ekki snúist um að þjóðkirkjan njóti ekki nógu mikils sjálfstæðis í störfum sínum heldur það að fólk sem tilheyrir þeirri kirkju og kærir sig um annars ágæta þjónustu hennar njóti sérstakra forréttinda, sérstakra fjárhagslegra forréttinda, til að mynda þeirra að einstaklingur sem ætlar að nota þjónustu annars trúfélags eða lífsskoðunarfélags þarf oft að borga hærri gjöld fyrir sömu þjónustu. Ástæðan fyrir því er ekki sú að þessi lög hafi ekki verið til staðar heldur að kirkjan er í mjög sérstöku, svo að sterkari orð séu ekki notuð, mjög sérstöku fjármálalegu sambandi við ríkissjóð sem er grundvallað á samningum eins og þeim sem hæstv. dómsmálaráðherra nefndi þegar hún talaði um að starfsmenn þjóðkirkjunnar væru ekki lengur opinberir starfsmenn.

Virðulegi forseti. Fólk sem vill jafnræði fyrir lögum í trúmálum hefur ekki verið að berjast fyrir því sérstaklega að starfsmenn þjóðkirkjunnar tilheyri hinum eða þessum hópi heldur vill það afnema ójafnræðið sem felst í því hvernig þetta óheilbrigða fjárhagslega samband ríkis og þjóðkirkjunnar er og, eftir því sem ég fæ best séð, á að vera áfram. Ég sé engin ummerki um þá annars ágætu viðleitni hæstv. dómsmálaráðherra að aðskilja ríki og kirkju algerlega í þessu frumvarpi eða í fyrirætlunum stjórnvalda yfirleitt, allra síst í uppfærðu kirkjujarðasamkomulagi sem snerist um það eitt að gera þann óskapnað, fyrirgefið orðbragðið, virðulegi forseti, varanlegan, sem er þvert á við kröfuna um jafnræði fyrir lögum í trúmálum. Á hvaða tímapunkti í aðskilnaði ríkis og kirkju fylgir aðskilinaður fjármálunum? Hvenær munum við fá jafnræði í trúmálum á Íslandi í þeirri vegferð sem hæstv. dómsmálaráðherra segist aðhyllast?