151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

loftferðir.

586. mál
[17:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftferðir. Í nýlega samþykktri flugstefnu, sem er hluti samgönguáætlunar, er áhersla lögð á að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur á sviði flugöryggis og styðja við frekari vöxt og framgang flugsamgangna hér á landi. Er því vel við hæfi að leggja fram frumvarp sem skapar flugsamgöngum nýja og uppfærða lagaumgjörð sem tekur mark á nútímakröfum og alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði. Markmið frumvarpsins eru fyrst og fremst að tryggja hátt öryggisstig í almenningsflugi og frekari vöxt og framgang samkeppnishæfrar flugstarfsemi hér á landi með umhverfisvænum hætti. Frumvarpið hefur að geyma veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum auk þess sem það felur í sér breytingar á öðrum lögum.

Í hnotskurn lúta þær breytingar sem lagðar eru til að þremur þáttum. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar er varða stjórn flugmála og eftirlit. Helgast þær fyrst og fremst af breytingum sem orðið hafa á síðastliðnum árum í tengslum við aðild Íslands að Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins EASA og er því með skýrari hætti kveðið á um verkaskiptingu Samgöngustofu og EASA í frumvarpinu. Þessi verkaskipting á rót sína að rekja til reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1139/2018, um almenningsflug, og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins o.fl. sem og forvera hennar. Gerðin, sem er þriðja kynslóð svokallaðrar móðurgerðar á sviði flugöryggis, hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn en drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar liggja fyrir og hafa verið send framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins til umsagnar. Umfang þessarar móðurgerðar er mikið, spannar svo til alla þætti flugstarfsemi og tekur til einstaklinga og lögaðila í almenningsflugi sem og verkefna og eftirlitsyfirvalda. Frumvarpið er einnig mikið að vöxtum eins og sjá má. Stjórnskipuleg álitaefni vegna fyrirhugaðrar upptöku og innleiðingar þessarar gerðar eru þau sömu og áður hafa komið til kasta Alþingis vegna upptöku og innleiðingar forvera hennar, reglugerðar Evrópubandalagsins nr. 216/2008. Snúa álitaefnin fyrst og fremst að framsali tiltekins framkvæmdarvalds til EASA og Eftirlitsstofnunar EFTA og framsali dómsvalds til dómstóls Evrópusambandsins og EFTA-dómstólsins í ákveðnum málum.

Í öðru lagi er um að ræða uppfærslu efnisákvæða loftferðalaga til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands. Á ég þá bæði við alþjóðlega samninga á sviði flugmála og EES-gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn eða bíða upptöku. Hér gætir fjölbreyttrar flóru skuldbindinga sem sumar hverjar taka örum breytingum. Því eru í frumvarpinu jafnframt styrktar heimildir til setningar reglugerða á þessu sviði. Í frumvarpinu er tekið tillit til samnings um sameiginlega evrópska flugsvæðið sem Ísland gerðist aðili að 2006 og tók gildi hvað afmarkaða þætti varðar í desember 2017. Þessi samningur kveður á um frjálsan markaðsaðgang, staðfesturétt, jöfn skilyrði til samkeppni og sameiginlegt regluverk og má geta þess að auk Íslands og Noregs eru aðildarríki Evrópusambandsins aðilar að samningnum sem og Albanía, Bosnía-Hersegóvína, Makedónía, fyrrverandi lýðveldi Júgóslavíu, nú Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía sem og borgaraleg stjórnsýsla Sameinuðu þjóðanna í Kósovó. Jafnframt er í frumvarpinu tekið tillit til nýs viðauka um öryggisstjórnunarkerfi við Chicago-samninginn um alþjóðaflugmál og er lagt til að komið verði á landsáætlun og aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis sem taki mið af flugöryggisáætlun Evrópu. Þá eiga fjölmörg efnisákvæði frumvarpsins sér beina skírskotun til efnisreglna EES-gerða, bæði nýrra gerða og þeirra sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn.

Í þriðja lagi mælir frumvarpið fyrir um lögfestingu alþjóðasamnings um skaðabótaábyrgð flugrekanda, svonefnds Montreal-samnings frá 1999. Að auki er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á öðrum lögum. Meginþorri þeirra breytinga varðar leiðréttingu hugtaka og tilvísana en einnig eru fáeinar efnisbreytingar. Veigamestu breytingarnar á lögum um rannsókn samgönguslysa varða skyldu nefndarinnar til að rannsaka flugslys og alvarleg flugatvik. Þá eru afmarkaðar breytingar lagðar til á tekjuskattslögum og lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, m.a. í því skyni að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA. Breytingar á lögum um virðisaukaskatt byggjast á stefnumiðum í flugstefnu um aukna umhverfisvernd og fela í sér heimild til 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts til bráðabirgða vegna loftfara og hreyfla sem nota rafmagn sem aðalaflgjafa við innflutning og fyrstu sölu. Þessar breytingar hafa verið undirbúnar í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti.

Virðulegi forseti. Ég mun nú gera grein fyrir meginefni frumvarpsins. Lagt er til að gildissvið loftferðalaga verði útvíkkað frá því sem nú er. Er það í samræmi við víðtækt gildissvið reglna Evrópusambandsins á sviði flugsamgangna, svo sem með tilliti til eftirlitshlutverks Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins með loftförum, aðilum og starfsemi í þriðju ríkjum og veitendum samevrópskrar þjónustu á sviði flugleiðsögu. Einnig er lagt til að lögin taki til annarra tækja og hluta sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför og sem ógnað geta öryggi loftferða. Sem dæmi um slíkt má nefna geimför og eldflaugar. Frumvarpið fjallar einnig um ómönnuð loftför og starfrækslu þeirra. Kveðið er á um skyldu til skráningar ómannaðra loftfara að tilteknum skilyrðum uppfylltum og skráningarskyldu flugrekenda og umráðenda ómannaðra loftfara. Uppfærð hafa verið ákvæði er varða aðgang að íslensku yfirráðasvæði, m.a. með tilliti til ómannaðra loftfara, ríkisloftfara og flugréttinda, þ.e. réttar til flugs í ábataskyni um íslenskt yfirráðasvæði. Einnig er kveðið á um skyldu flugrekenda frá þriðju ríkjum til að afla sér flugöryggisvottunar frá Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins sem forsendu til flugs til og frá og innan Íslands.

Í kafla um stjórnun, verkefni og eftirlit á sviði flugmála er leitast við að skýra nánar og afmarka verkefni og eftirlit, þ.e. Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins annars vegar og Samgöngustofu hins vegar, samstarf þessara tveggja stofnana og möguleika á tilfærslu eftirlits. Jafnframt eru settar fram almennar kröfur til stjórnsýslu Samgöngustofu með vísan til fyrirliggjandi krafna sem þegar hafa verið innleiddar. Þannig er lagt til að Samgöngustofa haldi tvær nýjar skrár auk fyrirliggjandi skrár um íslensk loftför. Annars vegar skrá um þá einstaklinga og fyrirtæki hér á landi sem starfrækja ómönnuð loftför og hins vegar skrá um tæki og hluti sem geta ferðast um loftið en eru ekki loftför.

Á sviði lofthæfis kveður frumvarpið á um nokkur nýmæli varðandi starfsemi sem háð er vottun á sviði hönnunar og framleiðslu framleiðsluvara á þessu sviði. Allt eru þetta efnisatriði sem þegar er fjallað um í fjölda EES-gerða sem þegar eru hluti EES-samningsins og hafa verið innleiddar í landsrétt.

Í VIII. kafla um flugrekstrarleyfi er lagt til að kröfur um eignarhald færist úr lögum um fjárfestingu erlendra aðila í flugrekstri yfir í lög um loftferðir. Þá er jafnframt lagt til að í stað tæmandi upptalningar á þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem varða staðfesturétt komi almennara orðalag sem vísi almennt til þeirra samninga sem Ísland hefur undirgengist.

Varðandi vottun einstaklinga eru lagðar til breytingar á lágmarks- og hámarksaldri flugmanna vissra tegunda loftfara og vottun aðila sem annast þjálfun og hafa staðfestu í þriðju ríkjum.

Á sviði neytendaverndar eru lagðar til breytingar á afgreiðslu kvartana neytenda og kæruréttur til ráðherra er felldur niður. Þess í stað verða úrskurðir Samgöngustofu bindandi með aðfararheimild nema sá flugrekandi eða rekstraraðili flugvallar sem kvörtun beinist gegn tilkynni innan 30 daga að hann hyggist ekki vera bundinn við úrskurð stofnunarinnar. Með lögfestingu Montreal-samningsins frá 1999, um bótaábyrgð flugrekanda, er jafnframt leitast við að skapa samningsákvæðum hans traustari grundvöll. Ákvæði um vinnuvernd flugverja í höfn hafa verið endurskoðuð, einkum hvað varðar vinnu- og hvíldartíma og almenna umgjörð eftirlits.

Í kafla um flugvelli eru nokkur nýmæli. Kveðið er á um vottun öryggistengds flugvallabúnaðar og þeirra sem sjá um flugafgreiðslu og veita hlaðstjórnunarþjónustu. Lögð eru til ný ákvæði um samráðsskyldu sveitarfélaga og rekstraraðila flugvallar um vöktun flugvallarumhverfis. Þá eru ákvæði um skipulagsreglur yfirfarin og uppfærð og kveðið er á um tilkynningaskyldu vegna hindrana og merkingar hindrana.

Á sviði flugleiðsögu er lagt til að nánar verði kveðið á um vottun rekstraraðila flugumferðar- og flugleiðsöguþjónustu. Einnig er nánar kveðið á um vottun kerfa og kerfishluta rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu. Bætt er við efnisákvæðum er varða þá þjónustuþætti sem falla þar undir. Jafnframt eru ný ákvæði um skipulag og hönnun loftrýmisins, m.a. til að tryggja víðtækt samráð um þau atriði er varða nýtingu loftrýmisins sem ætlað er að gilda ótímabundið.

Í kaflanum um eftirlits- og valdheimildir, þvingunarúrræði og refsingar eru almennar eftirlits- og valdheimildir styrktar og Samgöngustofu fengið vald til að leggja á stjórnvaldssektir. Kveðið er á um víðtækt bann við neyslu geðvirkra efna og Samgöngustofu veittar heimildir til eftirlits með því. Einnig er Samgöngustofu falið opinbert markaðseftirlit með vörum sem falla undir lögin, þar með talið ómönnuðum loftförum.

Virðulegi forseti. Ég hef nefnt hér helstu nýmæli frumvarpsins. Ekki gefst tími til að greina frá öllum þeim breytingum sem í því felast en ítarlega er gerð grein fyrir þeim í almennri greinargerð sem fylgir frumvarpinu. Verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir því að það hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Ráðuneytið mun veita allar nánari upplýsingar um einstaka liði frumvarpsins eftir því sem óskað verður eftir. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.