151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur væntanlega misst af framsögu minni hér áðan. Þær ákvarðanir sem teknar eru núna eru teknar á grundvelli minnisblaðs sóttvarnalæknis. Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir, aftur, með leyfi forseta:

„Bólusetningarvottorð og vottorð um fyrri Covid-sýkingu utan EES-svæðisins verði tekin gild eins og vottorð innan EES-svæðisins. Sömu kröfur verði gerðar til allra vottorða.“

Þetta er það sem undirbyggir þá ákvörðun mína að breyta reglugerð og jafnframt ákvörðun dómsmálaráðherra um reglugerð sem lýtur að för yfir landamæri.

Hv. þingmaður blandar hér saman tveimur atriðum og því sem ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um og gerði raunar í janúar með fréttatilkynningu og laut að því að fara að miða við litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu frá og með 1. maí. (Forseti hringir.) En það er annað mál og ég bið hv. þingmann að halda þessu aðskildu.