151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það. Hér er einmitt verið að henda burtu því sem við höfum án þess að hafa hugmynd um hvað á að koma í staðinn. Þetta frumvarp er vísirinn að því hvað gæti komið í staðinn. Það er samt frekar augljóst að þetta er í rauninni mjög innihaldslítið frumvarp þegar allt kemur til alls um þær aðstæður sem verða á fyrstu stigum nýsköpunar í kjölfarið. Því fyrr því betra, því að aðstæðurnar eins og þær eru núna kalla einmitt á grunnnýsköpun og hugmyndirnar eru alveg fjöldamargar þarna úti.

Mig langar aðeins að tala um annað í frumvarpinu sem er umfangið á þessu stigi, sem er kannski vísisjóður o.s.frv. með Kríuna t.d., sem eru 100 milljónir á ári, heilar 100 milljónir. Eins og kom fram í umsögn Space Iceland er það á við eitt parhús á höfuðborgarsvæðinu á ári sem landsbyggðin er að keppast um að fá hlutdeild í. Hversu langt skilar það okkur á því stigi nýsköpunar í raun og veru? Það eru ekki mörg verkefni þegar allt kemur til alls, því að á þessu stigi nýsköpunar er hlutdeildin yfirleitt farin að kosta mun meira en hún gerir á allra fyrstu stigum. Það er annar galli á þessu frumvarpi að því ég tel. Vissulega er verið að setja eitthvað af stað en þetta eru svoddan smámolar að það verða í rauninni fleiri hungraðir eftir þetta. Þegar maður fær ekki nægilega mikið að borða verður vandamálið þeim mun umfangsmeira.